Verðlagseftirlit ASÍ segir að 14 dekkjaverkstæði hafi neitað fulltrúum ASÍ um upplýsingar á verði við dekkjaskipti í byrjun mánaðarins. Því hafi ekkert orðið úr nothæfri könnun sem átti að gera til að upplýsa neytendur um verðmismun milli fyrirtækja.
Fyrirtækin eru eftirfarandi að sögn ASÍ: Betra grip, N1, Dekkjahöllin, Gúmmívinnustofan, Bílkó, Dekkjahúsið, Bifreiðaverkstæði SB, Klettur, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Barðinn, Sólning, Nesdekk Grjóthálsi, KvikkFix og Hjólbarðaverkstæði Kaldasels.
Í frétt Ríkisútvarpsins kemur fram að vísbendingar séu um að dekkjaverkstæði hafi tekið sig saman um að neita fulltrúum verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands um upplýsingar um verð á umfelgun í byrjun apríl. Starfsfólki ASÍ hafi verið sýndur dónaskapur á nokkrum verkstæðum.