Vísa á momo úr landi – talar íslensku, hefur unnið hjá íslenskum fyrirtækjum og á fataverslun í miðbænum

„Kæru íslendingar[.] Mig vantar hjálp. Ég er upprunalega frá Japan, og hef búið hér á Íslandi [í] sirka fjögur ár (ég kom til Íslands 25. ág[úst] 2015). Ég var í háskóla [í] þrjú ár til þess að læra íslensku og síðan byrjaði ég að vinna hjá ferðaskrifstofu. Síðasta desember sótti ég um atvinnudvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar. Fyrirtæki sem ég vinn hjá gaf mér persónulegt meðmælabréf til að sýna að ég er ekki almenn starfsmanneskja heldur kann ég íslensku, ensku og japönsku, með sérfræðiþekkingu í asískri menningu, reynslu við að vinna hjá ferðafyrirtæki og svo framvegis.“

Á þessum orðum hefst færsla Momo Hayashi, sem hún birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Momo er japönsk kona sem hefur búið hér á landi í tæp fjögur ár. Í færslunni óskar hún eftir hjálp þar sem til stendur að vísa henni úr landi. Momo talar íslensku, hefur unnið hjá íslenskum fyrirtækjum og er meðeigandi íslensku fataverslunarinnar SVART by Svart / Marko Svart.

Hún segir að Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun hafi samþykkt umsókn sína um atvinnudvalarleyfi en að sex mánuðum seinna hafi Vinnumálastofnun hafnað umsókninni. „Ástæða þess var að ég væri ekki frá Evrópusambandinu og að annað fólk gæti unnið fyrir mig. Það sagði ekkert um sérfræðiþekkingu. Síðan mælti hún með að ég myndi prófa að sækja um atvinnuleyfi vegna skorts á starfi. Ég prufaði það en síðan hafnaði [V]innumálastofnun umsókninni aftur vegna þess að það eru margir [Í]slendingar atvinnulausir. Ég vissi alveg að Japan væri ekki í Evrópusambandinu og af atvinnuástandinu á Íslandi.“

„Ég hringdi vikulega í Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun til að spyrja hvernig gengi með dvalarleyfið, en þau sögðu mér í símanum alltaf að það væri í vinnslu og allt liti vel út. Sjö mánuðum síðar, allt í einu, nei, það gengur ekki af því að þú ert ekki evrópsk og vegna atvinnuástandsins,“ segir Momo og furðar sig á vinnubrögðunum.

„Af hverju þá var umsókn mín móttekin? Af hverju sögðu þau að það gengi vel?“ veltir hún fyrir sér. „Nú missti ég vinnuna, fyrirtækið sagði mér að ég gæti ekki unnið lengur ([þ]ess vegna var ég ekki í vinnunni í dag, en allir frá fyrirtækju[nu]m eru svo hjálps[amir], ég er þakklát),“ bætir hún við.

Momo segir að í gær hafi hún fengið bréf frá Útlendingastofnun þar sem henni var tjáð að dvalarleyfi hennar væri óheimilt og að hún þyrfti að yfirgefa landið innan 30 daga. „Ég fór [til] Útlendingastofnun[ar] í janúar, áður en dvalarleyfið rann út. Þær [hjá] Vinnumálastofnun notuðu sjö mánuði, en þær segja að ég væri hér á landinu án dvalarleyfi [í] meir[a] en 90 daga svo ég þyrfti að fara strax.“

„Vinnumálastofnun sendi mér bréf 5. júlí, [svo] fékk ég bréf frá Útlendingastofnun í dag. Er það ekki ótrúlega fljótt?,“ spyr hún.

Momo veltir fyrir sér hvað sé til bragðs að taka fyrir hana. „Hvað er þá að gera? Er ég með mannréttindi? Þarf ég að fara alla leið til Japans eftir fjögur ár hér?“

Hún segir að sér líði eins og Íslendingi. „Ég fór í háskólann, tala íslensku, vinn hjá íslenskum fyrirtækjum, á húsnæði, á falleg[a] fataverslun í miðbæ[num], borga skatt.. ég er tilbúin að fá ríkisborgararétt í framtíðinni. Ég get unnið eins og [Í]slendingur einnig, og er með reynslu í útlöndum.“

„Ég prófaði allt sem ég gat. Ég reyndi að panta fundartíma hjá Vinnumálastofnun en auðv[i]tað [var] mér sag[t] að hún væri í sumarfríi! Frábær þjónusta!“

Að lokum spyr hún: „Gerði ég eitthvað rangt? Tók ég starfi[ð] þitt? Ætti ég að biðja [ein]hverja íslensk[a] menn að gift[a]st mér og vera húsmóðir ? Eða ætti ég fara til „heima“lands?“

Vilja hjálpa henni

Í ummælum við færsluna fær Momo mikinn stuðning og furða allir sig á vinnubrögðunum.

Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar og verkefnastjóri Samtaka kvenna af erlendum uppruna vill hjálpa Momo og segist hafa sent henni persónuleg skilaboð.

Þá biður Hreiðar Eiríksson, lögfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður leyfasviðs Útlendingastofnunar, Momo um að hafa samband við sig.

Aðrir benda henni á að hafa samband við Magnús Davíð Norðdahl, sem hefur reynslu af málum sem þessum. Hann er til dæmis lögfræðingur afgönsku fjölskyldnanna tveggja sem vísa átti úr landi, en fá nú að dvelja hérlendis eftir breytingu dómsmálaráðherra á reglugerð um lengd efnismeðferðar fólks sem er með alþjóðlega vernd.

Einnig er henni bent á að hafa samband við Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur, sem var á meðal lögmanna Báru Halldórsdóttur í tengslum við Klaustursmálið.

Þá er bent á fáránleika þess að hún sé eigandi íslenskrar fataverslunar en megi svo ekki vera hér á landi.

Hinrik Auðunsson segir að útlit sé fyrir að Momo þurfi að yfirgefa landið í að minnsta kosti sex mánuði: „Það l[í]tur út fyrir að þú þurfir að fara til Japan, eða allavega út fyrir Schengen í hálft ár og koma aftur og sækja þá um rétt leyfi. Ég held að svona virki þetta alls staðar. Upphaflega leyfið er útrunnið og það má ekki breyta tilgangi leyfisins á meðan á dvöl stendur.“