Vinur bjarna ben fékk 100 milljónir frá fjármálaráðuneytinu

Fjármálaráðuneytið greiddi lögmannsstofunni Íslögum 100 milljónir með virðisaukaskatti fyrir að sjá um og selja ríkiseignir. Eigandi stofunnar er Steinar Þór Guðgeirsson vinur og fyrrverandi skólafélagi Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra.

Það var árið 2016 sem fjármálaráðuneytið stofnaði félagið Lindarhvoll og er því í eigu ríkisins. Tilgangur þess var að halda utanum eignir sem framseldar voru til ríkisins í ársbyrjun 2016, eftir nauðasamninga við föllnu bankana í lok árs 2015. Rekstrarkostnaður Lindarhvols var á þeim tíma um 196 milljónir. Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins. Þá hefur Stundin fjallað ítarlega um Lindarhvol en það vakti athygli að sala á stöðugleikaeignum ríkisins skildi ekki lúta stjórnsýslulögum.

Lögfræðistofan Íslögum er eins og áður segir í eigu Steinars Þórs Guðgeirssonar og konu hans, Ástríðar Gísladóttur. Steinar Þór, er fyrrverandi knattspyrnukappi með Fram og á fáeina landsleiki að baki. Steinar Þór var einnig í lagadeild á sama tíma og Bjarni Benediktsson og er þeim vel til vina. Lögfræðistofa Steinars Þórs fékk greitt sem nemur tæplega fimm milljónum króna að jafnaði til félagsins á mánuði á meðan það var í rekstri.

Laun stjórnar Lindarhvols voru um 32 milljónir á tímabilinu. Kostnaður við endurskoðun og eftirlit sem félagið gerði við fjármálaeftirlitið var 43 milljónir króna.

Viðskiptablaðið óskaði eftir upplýsingum um starfsemi Lindarhvols og hversu miklir fjármunir fóru til fyrirtækis. Í svari fjármálaráðuneytisins sagði að „Steinar Þór hafi verið vel til þess fallinn að vinna fyrir Lindarhvol [...] Hann þekkti því vel forsögu málsins og einstakar eignir. Þá hafði Steinar Þór verið tilnefndur sem áheyrnaraðili („observer“) í stöðugleikasamningi við Kaupþing ehf.“ Þá segir einnig í Viðskiptablaðinu sem vitnar í svar fjármálaráðuneytisins:

„Stjórn Lindarhvols taldi einnig mikilvægt að gætt væri að samfellu við meðferð og rekstur þessara eigna, enda var ætlaður skammur tími til að leysa úr verkefninu.“