Vilja að kristján þór segi tafarlaust af sér - segja að samstaða um baráttufundi á austurvelli fari sífellt vaxandi

 

Ung vinstri græn, Ungir jafnaðarmenn, Ungir píratar og Ungir sósíalistar bætast í hóp þeirra sem standa að baráttufundinum “Lýðræði - ekki auðræði” laugardaginn 7. desember næstkomandi. Auk þeirra hefur Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar ákveðið að styðja kröfur fundarins. Félögin sem höfðu þegar lýst yfir stuðningi eru Stjórnarskrárfélagið, Efling stéttarfélag, VR stéttarfélag, Öryrkjabandalag Íslands, Gagnsæi - samtök gegn spillingu, Samtök kvenna um Nýja stjórnarskrá og hópur almennra borgara og annarra félagasamtaka. Meðal ræðumanna á mótmælunum verða Drífa Snædal, Bragi Páll Sigurðarson og Þorgerður María Þorbjarnardóttir. Að fundi loknum mun svo Hemúllinn flytja tónlist.

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins og einn skipuleggjanda, segir að rúmlega 4600 manns hafi mætt á Austurvöll laugardaginn 23. nóvember síðastliðinn og tekið undir kröfurnar:

“Þegar eitt fjölmennasta stéttarfélag landsins bætist í hópinn, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, er ljóst að afar stór hluti landsmanna styðji kröfurnar okkar. Slíka samstöðu og fjölda getur engin ríkisstjórn hunsað eða horft fram hjá,” segir Katrín.

Þær kröfur sem liggja að baki fundarins eru meðal annars að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, segi tafarlaust af sér embætti og að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins og til að tryggja mannsæmandi lífskjör allra. Þá krefjast skipuleggjendur að Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá Íslands.