Magnús geir: þjónustufulltrúi vildi að látin manneskja myndi hringja sjálf til að segja upp áskrift

Magnús Geir Eyjólfsson, fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu, lenti í heldur einkennilegu en nokkuð skondnu atviki þegar hann tók að sér að segja upp þjónustu hjá Símanum fyrir manneskju sem lést nýverið. Magnús sagði frá símtalinu fyrst á Twitter og lýsti því á þessa leið:

„Góðan daginn, ég er að hringja út af XXX sem er látin og þarf að segja upp allri þjónustunni hennar. Þjónustuver Símans: Hún þarf að hringja sjálf til að segja upp þjónustu.“

Magnúsi varð orðavant en eftir að hafa útskýrt í annað sinn af hverju hann væri að hringja hefði starfsmaðurinn leyst málið farsællega. Eftir að færslan fór á flug á Twitter setti starfsmaður Símans sig í samband við Magnús og vildi með því ganga úr skugga um að hann væri ekki ósáttur við þjónustu fyrirtækisins en bæði Síminn og Vodafone brugðust vel við og leystu málið farsællega. Magnús segir í samtali við Hringbraut:

„Starfsmanni Símans til varnar þá held ég að það hafi bara farið framhjá henni þegar ég sagðist vera að hringja fyrir hönd látinnar manneskju.“