Víkjum ekki vegna pólitískra andstæðinga

 „Við erum þjóðkjörnir af ákveðnu fólki til að sitja þarna. Ef það er þannig að einhver getur ekki starfað með okkur, alveg sama hvað það er, þá getum við ekki bara vikið af þingi út af því að fólk sem er andstæðingar okkar telja vont að vera nálægt okkur,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins.

Gunnar Bragi og Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, eru gestir Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þeir endurkomu sína á Alþingi í dag eftir að hafa báðir tekið sér launalaust leyfi í kjölfar Klaustursmálsins.

Brot úr viðtalinu þar sem Gunnar Bragi og Bergþór ræða áfengisbindindi sín:

Ósáttir við upptöku á einkasamtali

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra er ein af þeim sem var talað ósæmilega um á upptökunum. Hún vissi ekki af fyrirhuguðum endurkomum Gunnars Braga og Bergþórs á þing í dag. „Ég er búinn að biðja hana fyrirgefningar og afsökunar og geri það enn og aftur. Ef einhver hefði átt að fá „heads-up“ var það hún. Lilja er eðlilega ekki sátt við það sem var sagt. Ég er heldur ekkert sáttur við það sem ég sagði. Ég er líka heldur ekkert sáttur við það að hver sem er, hvort sem það eru þingmenn eða aðrir, geti ekki átt einkasamtal án þess að það sé tekið upp. Er það samfélagið sem við viljum búa í?“ segir Gunnar Bragi.

Aðspurður um hvort það sé ekki gott að kjósendur fái að vita hvað þingmenn láti út úr sér segir Bergþór: „Hluti af því sem sló mig illa í þessu máli öllu og slær mig enn er í rauninni hversu margir voru ánægðir með að þetta væri þróun mála, að það væri orðinn eðlilegur hlutur, í þessu tilfelli að þingmenn væru teknir upp, til að reyna að sýna fram á hvernig þeir tala, hvernig þeir hugsa og hvernig þeir tjá sig undir áhrifum áfengis. Hvar á að draga þessa línu? Ég held að almenningur heilt yfir sé ekki áhugasamur um að fara þessa vegferð. Það eru auðvitað býsna margir og háværir sem eru það.“

„Þetta segi ég án þess að draga neitt úr því sem ég sagði. Fyrir það dauðskammast ég mín og vildi gjarnan geta tekið aftur. En þetta samtal sem á sér stað þarna er samtal milli félaga sem menn reikna ekki með að verði endurómað fyrir alþjóð allri. Þar verða særindin, eins og fyrir Lilju og fleiri sem fyrir urðu,“ segir Bergþór einnig.

Nánar er rætt við Gunnar Braga og Bergþór í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.