Vigdís hauks mætir í mannamál

Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingkona Framsóknarflokksins mætir í Mannamál til Sigmundar Ernis á Hringbraut í kvöld og talar umbúðalaust um líf sitt innan og utan íslenskra stjórnmála.

Vigdís er klárlega einn umdeildasti og litríkasti stjórnmálamaður samtímans, enda er hún óhrædd við að tjá hug sinn um menn og málefni, jafnvel svo að mörgum hefur þótt nóg um.

Hún er jafnframt sá stjórnmálamaður sem hefur fengið mestu gusurnar yfir sig á samfélagsmiðlum, en í reynd er það með hreinum ólíkindum hvað fólk hefur látið út úr sér þegar Vigdís hefur borist í tal.

Hún tekur það ekki nærri sér - og þó ...

Um allt þetta tjáir Vigdís sig í persónulegu samtali við Sigmund Erni sem sýnir um margt nýja hlið á sveitastelpunni sem valdi Garðyrkjuskólann þegar kom að framhaldsnámi og rak um árabil blómaverslanir áður en hún söðlaði um, skildi við karlinn sinn og hóf lögfræðinám á Bifröst sem stuttu síðar skilaði henni þingsæti.

Mannamál eru frumsýnd klukkan 21:00 í kvöld og endursýnd strax klukkan 23:00.