VIÐREISN STEFNIR AÐ SIGRI Í KOSNINGUM

Sögulegur fundur: 100% öruggt að hægri sinnaður evrópuflokkur fari fram:

VIÐREISN STEFNIR AÐ SIGRI Í KOSNINGUM

Frá fundinum á Hótel Kea í gærkvöld.
Frá fundinum á Hótel Kea í gærkvöld.

Ekkert getur komið í veg fyrir að Viðreisn bjóði fram fyrir næstu þingkosningar í öllum kjördæmum landsins. Þetta sagði Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, á fundi sem fram fór á Hótel Kea á Akureyri á þriðjudag. Allnokkrir trúnaðarmenn, bæði fyrrverandi og núverandi í Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki voru meðal fundargesta sem skiptu tugum. Einnig sótti ungt fólk fundinn.

Viðreisn hóf kynningu á málefnum sínum á landsvísu á opnum fundi á Akureyri. Kom fram í máli frummælenda að með fundinum væri runnin upp söguleg stund hins nýja afls. Ásamt Benedikt voru frummælendur á fundinum Jórunn Frímannsdóttir, deildarstjóri Blóðbankans og fyrrverandi borgarfulltrúi og Katrín Kristjana Hjartardóttir stjórnmálafræðinemi. Í kynningu á helstu stefnumálum frummælenda Viðreisnar kom fram pólitísk áhersla á frelsi og almannahagsmuni í stað sérhagsmuna. Fram kom hörð gagnrýni á núverandi stefnu íslenskra stjórnvalda, þá ekki síst gjaldmiðilinn. „Við erum með mynt sem er svo lokuð að engin vill taka við henni. Það er hlegið að íslensku krónunni,“ sagði Benedikt. Hann ræddi vaxtaokrið innanlands og samkeppnishæfi við önnur lönd en Viðreisn verður fyrsti hægri flokkurinn sem vill ganga í ESB hér á landi.

Ýtt undir einkarekna skóla

Nokkur umræða fór fram um menntamál á fundinum. Katrín Kristjana fór yfir að umbætur í menntamálum hefðu tekið langan tíma og skilað litlu. Lyfta yrði verklegum greinum. Samkvæmt tölum OECD væru Íslendingar að dragast aftur úr í menntamálum. Ísland sé ekki samkeppnishæft,  nemendur útskrifuðust mun seinna en önnur vestræn ríki. Það dragi úr trúverðugleika menntakerfis og framlegð. Þá kom fram sú áhersla að lyfta ætti undir rekstur einkarekinna skóla. „Fjármagnið á að fylgja nemendum en ekki skólum. Við eigum að ýta undir einkarekna skóla með mismunandi stefnur.“ Katrín ræddi að einkareknu skólarnir hefðu verið ríkisskólum mikilvæg samkeppni. Dæmi um vel heppnað framtak væri Hjallastefnan og Ísaksskóli. Bragarbót hefði verið gerð í verkfræði- og viðskiptanámi í HÍ þegar Háskólinn í Reykjavík fór að bjóða upp á nám í sömu fræðum. „Við verðum að hafa samkeppni.“

Bankaeinokun kosti 200 milljarða

Í annarri umræðu um samkeppni sagði Benedikt um bankana að Íslendingar væru að borga 200 millarða aukalega í vexti á hverju ári, aðeins vegna þess að hér væri ekki samkeppni. Ástæða þess að erlendir bankar hefðu ekki áhuga á virkri samkeppni við innlendu bankana sem héldu uppi vaxtaokrinu  væri hin varasama íslenska króna. „Þarna er verk að vinna. 200 milljarðar árlega, 20% af heildarlaunum á Íslandi eru í húfi,“ sagði Benedikt og sagði að betra væri að setja þessa 200 milljarða í „alvöru atvinnulíf“ en ekki milliliði eins og bankakerfið. Hann sagði að skattar ættu fyrst og fremst að fara í heilbrigðis- og menntakerfið.

Meðal fundargesta í gær mátti sjá nokkra fyrrum sjálfstæðismenn og samfylkingarmenn, þar af nokkra trúnaðarmenn. Því var fleygt fram að ef vel tækist að manna listana fyrir þingkosningarnar 2017 gerði Viðreisn sér vonir um 25% fylgi. Sögðu sumir ræðumenn líkt og gestir í sal að rétt væri að stefna að því að Viðreisn myndi sigra í næstu þingkosningum, enda væri róttæk þörf á breytingum.

 

Nýjast