Viðar: „mörg hundruð milljónir sem við erum að innheimta á hverju ári í vangoldin laun“

„Mestur fjöldi launakrafna sem við erum að gera vegna vangoldinna launa, hann er í ferðaþjónustunni, hann er í veitingageiranum, því miður. Það er ekkert leyndarmál. Ég held að í byggingargeiranum sé hvert mál aðeins stærra, það eru fleiri starfsmenn undir hverri kröfu. En þessi mikli fjöldi sem tikkar inn, hvert málið á fætur öðru, þetta eru mörg hundruð milljónir sem við erum að innheimta á hverju ári í vangoldin laun, hundruð mála. Við í Eflingu erum með tíu starfsmenn í fullri vinnu árið um kring, nánast eingöngu við þetta, að rétta hlut starfsfólks sem hefur mátt þola það að sé verið að snuða það um laun, og því miður eru þetta þjónustustörf tengd ferðaþjónustunni.“

Þetta segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við Sigmund Erni í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld. Þar ræddi hann svindl á vinnumarkaði. Viðar fór meðal annars yfir málefni starfsmannaleigunnar Menn í vinnu, sem komst í fréttir á síðasta ári fyrir illa meðferð á starfsfólki sínu og er nú að skipta um nafn og kennitölu. Hann ræddi  auk þess um innheimtu vangoldinna launa og hvernig Eflingu renni blóðið til skyldunnar að hjálpa til á því sviði.

Hann segir að staðan þurfi alls ekki að vera þannig að Efling verði að innheimta laun í þetta miklum mæli. „Því miður er það þannig mjög víða um heim að ferðaþjónustan, hún er láglaunagrein. Það má svo sem greina það fram og til baka að það hefur oft verið tilhneiging til að greiða hærri laun í starfsgeirum þar sem er meiri framleiðni. Það hefur náttúrulega verið raunin, til dæmis í fiskvinnslu, þar er alltaf verið að auka framleiðni. Á meðan er kannski ekki jafn auðvelt að gera það í störfum sem ganga út á þetta sama, að skipta á rúmum og reiða fram morgunverð og slíkt.“

„Við í verkalýðshreyfingunni, við í Eflingu, lítum bara á að það sé okkar hlutverk að breyta þessu. Að við beitum okkur af meiri hörku en við gerum það auðvitað ekki nema með vilja og þátttöku fólksins sjálfs,“ bætir Viðar við.

Vaxandi baráttuhugur og hugrakkt erlent vinnuafl

Hann segir að það beri á vaxandi baráttuhug og sýnileika þeirra sem eru að berjast. „Við höfum séð síðustu mánuði og misseri vaxandi baráttuhug. Ég held til dæmis að hótelþernuverkfallið okkar 8. mars hafi vakið mjög mikla athygli. Þar vorum við að sjá hóp sem hefur verið mjög ósýnilegur í íslensku samfélagi. Hótelþernur sem vinna á þessum hótelum þar sem mestmegnis útlendingar eru að gista. Kannski verða Íslendingar ekkert mjög mikið varir við þetta fólk, í mörgum tilfellum konur. Þarna stíga þær fram og rísa upp og tókst á þessum degi að vekja feiknarlega athygli á sér og sínum málefnum.“

„Svo er það okkar hlutverk, sem við höfum reynt eftir megni, að fara inn á þessa vinnustaði, efna þar til funda, kjósa trúnaðarmenn. Við höfum fundið það að erlenda vinnuaflið hér á Íslandi er hugrakkt. Það er ekki þannig að það sé feimið eða einhvern veginn óöruggt gagnvart þessu. Það er oftar en ekki bara fullkomlega tilbúið að taka slaginn, bjóða sig fram í að vera trúnaðarmenn og stundum held ég að það séu fordómar Íslendinga sem hafa aðeins haldið aftur af þeim á einhvern hátt. En það er bara staðreynd að við erum með hérna til dæmis í pólska samfélaginu, við erum með fólk sem veit hvað verkalýðsbarátta er, fólk sem upplifði það sjálft hvernig verkalýðsbarátta í Póllandi breytti þeirra samfélagi fyrir nokkrum áratugum síðan. Það er til í slaginn,“ segir Viðar að lokum.

Viðtalið við Viðar í heild sinni er að finna hér: