Fjölskyldunni sundrað: Útlendingastofnun sendir eiginkonu Pjeturs úr landi

Fjölskyldunni sundrað: Útlendingastofnun sendir eiginkonu Pjeturs úr landi

Af forsíðu DV í dag
Af forsíðu DV í dag

Útlendingastofnun hefur ákveðið að vísa filippseyskri konu úr landi. Konan, Mayeth Gudmundsson, er gift íslenskum ríkisborgara og eiga þau saman 10 ára dóttur. Mayeth var synjað um dvalarleyfi á þeim grundvelli að ekki var hægt að sýna fram á nægar tekjur heimilisins. Henni er gert að yfirgefa landið innan 15 daga, ellegar verði það gert með valdi.

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði DV.

Mayeth, Pjetur Gudmundsson og dóttir þeirra, Aimee Áslaug, hafa búið í Kópavoginum síðan í fyrra en hafa stærstan hluta samvistar sinnar búið erlendis. Mayeth og Pjetur hafa verið gift í tæp 11 ár og allan hjónabandstímann hafa Mayeth og Aimee Áslaug búið á Filippseyjum og Pjetur flogið reglulega yfir.

„Við kynntumst fyrir 12 eða 13 árum. Þá bjó ég í Noregi og starfaði sem sjómaður. Síðasta sumar fannst okkur vera rétti tíminn fyrir okkur að búa öll saman hérna á Íslandi og þær komu í júní eða júlí,“ segir Pjetur í samtali við DV.

Tók átta mánuði að fá svar

Þann 27. ágúst í fyrra sótti Mayeth um dvalarleyfi sem maki Íslendings hjá Útlendingastofnun. Að sögn Pjeturs var öllum nauðsynlegum pappírum skilað inn, þar á meðal staðgreiðsluyfirliti yfir tekjur ársins. Úrskurðurinn tók átta mánuði, en svarið frá Útlendingastofnun barst þann 6. maí síðastliðinn. Því þarf Mayeth að óbreyttu að yfirgefa landið þann 21. maí næstkomandi.

„Hún vildi auðvitað geta fengið sér vinnu og að við gætum lifað eðlilegu heimilishaldi eins og flestir aðrir. En hún fær ekki kennitölu nema hún sé komin með dvalarleyfi. Við erum hamingjusamlega gift.“

Hann segir niðurstöðuna þýða að hann missi bæði konu sína og barn, þrátt fyrir að úrskurðurinn nái einungis til Mayeth. „Þær voru báðar grátandi þegar komið var með bréfið í ábyrgðarpósti klukkan tíu í gærkvöldi, og gátu ekkert sofið um nóttina.“

Geta ekki sýnt fram á nægar tekjur

Pjetur er öryrki en fær þó aðeins hálfar bætur frá Tryggingastofnun, rúmlega 157 þúsund krónur á mánuði. Hann segir að þrátt fyrir að Útlendingastofnun segi að þessi upphæð sé ekki nægileg til að framfleyta fjölskyldunni hafi fjölskyldan getað lifað af henni.

DV sendi fyrirspurn til Útlendingastofnunar vegna málsins og einu svörin sem miðillinn fékk voru upplýsingar um að samkvæmt lögum um útlendinga væri trygg framfærsla eitt af grunnskilyrðum þess að veita dvalarleyfi. Lágmarksframfærsla miðast við 189.875 krónur á mánuði fyrir einstakling og 284.813 krónur fyrir hjón. Upphæðirnar miðast við tekjur fyrir skatt.

Í svarinu var einnig bent á að samkvæmt 57. grein laga um útlendinga er heimilt að víkja frá skilyrði um trygga framfærslu hafi framfærsla verið ótrygg um skamma hríð vegna atvinnuleysis, slyss eða veikinda eða vegna sambærilegra ástæðna og eins ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því.

Pjetur er eins og áður segir öryrki. Hann varð það fyrir fjórum árum síðan í kjölfar þess að hann fékk heilahimnubólgu og síðar sýkingu sem krafðist uppskurðar í heila þar sem æðagúlpur var fjarlægður. Fær hann regluleg höfuðverkjaköst síðan.

Nýjast