Undirbúa komu á fimmta tug flóttafólks

Á Blönduósi og Hvammstanga stendur nú yfir undirbúningur fyrir móttöku nýrra íbúa. Bæjarfélögin ákváðu að taka á móti alls 44 sýrlenskum flóttamönnum eftir að velferðarráðuneytið sendi seint á síðasta ári erindi til allra sveitarfélaga landsins um mótttöku flóttafólks.

RÚV greinir frá því að fyrri hópur flóttafólksins muni koma til Hvammstanga á þriðjudagskvöld og sá síðari á Blönduós á miðvikudagskvöld. Ein fjölskylda kemur síðar. Flóttafólkið, sem hefur dvalið í Líbanon undanfarin ár, samanstendur af níu fjölskyldum sem innihalda á þriðja tug barna.

Undirbúningur fyrir móttöku fólksins er á lokametrunum. „Stærsti þátturinn núna er að sjá til þess að húsnæðið sé klárt og að fjölskyldurnar komi bara inn á sín heimili og þau séu tilbúin fyrir þau. Það eru hörkuduglegir sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum aðallega sem eru að sinna þessu, alveg ótrúlegur hópur,“ segir Þórunn Ólafsdóttir, verkefnastjóri vegna móttöku flóttafólksins á Blönduósi, í samtali við RÚV.

„Þetta hefur gengið bara alveg ótrúlega vel. Svona gerist auðvitað ekki af sjálfu sér og það þarf heilt þorp í þetta verkefni. Nú get ég auðvitað ekki talað fyrir hönd allra heimamanna, en það sem ég hef heyrt og séð er ekkert annað en hugur í fólki og fólk tilbúið að taka vel á móti nýjum íbúum,“ bætir hún við.