Undir yfirborðinu - elísabet kristín: „ég ætlaði að biðja hann um að giftast mér í miðri sýningu“ - „ferlið byrjar á fantasíu“

„Ástarfíkillinn er sá sem í grunninn finnst hann ekki nógu mikils virði. Hann er í rauninni ekki nóg og vantar einhvern til þess að gera sig nóg. Það er að segja, hann þarf á einhverjum að halda.“

Þetta segir Valdimar Þór Svavarsson, félagsráðgjafi sem var einn viðmælandi Ásdísar Olsen í nýjasta þætti Undir yfirborðið. Í þættinum er fjallað um sjúka ást og þann mikla tilfinningalega sársauka sem fylgt getur óheilbrigðum samböndum.

Ferlið byrjar sem fantasía

Segir hann ástarfíkla upplifa sig lítils virði sem geri það að verkum að þegar hann kynnist einstaklingi sem hann er hrifin af sér hann riddarann á hvíta hestinum eða draumaprinsessuna. Þá gerist eitthvað innra með þeim og flugeldar fara í gang.

„Þetta verður ákveðin fantasía, þeir sjá manneskjuna eins og þeir vilja að hún sé. Ferlið byrjar á fantasíu,“ segir hann.

\"\"

Brynhildur Karlsdóttir, sviðslistakona var einnig viðmælandi Ásdísar en sjálf hefur hún upplifað sjúka ást og ástarfíkn.

„Ég oft sé einhvern og  hugsa: „Það er eitthvað við þennan.“ Jafnvel áður en ég er búin að tal við manneskjuna þá er ég búin að búa til heilan heim. Hugsa kannski: „Já hann er svona myndlistarmaður og við getum þá kannski verið eitthvað saman sem svona listamenn og kannski getum við flutt til Berlínar og verið að mála í ris íbúð eða semja tónlist og drekka kaffi. Og þetta er allt sko áður en ég er búin að tala við manneskjuna,“ segir Brynhildur.

„Mér finnst þetta alltaf vera rosalega einlægar og sterkar tilfinningar í hvert skipti, mér finnst ég ekki ver að spila neinn leik. En ef ég lít til baka þá er ég kannski með einn fótinn úti og það myndast ekki eitthvað svona, að allir séu öruggir, í rónni og vita að það er ekkert að óttast,“ segir hún.

\"\"

Brynhildur og Elísabet ræða um sjúka ást

Elísabet Kristín Jökulsdóttir, skáld, hefur einnig upplifað ástarfíkn. Gekk hún eitt sinn svo langt að ætla sér að biðja mann sem hún var ástfangin af að giftast sér í miðri sýningu.

„Ég til dæmis fór inn í Þjóðleikhúsið þar sem hann var að leika og ég ætlaði að biðja hann um að giftast mér í miðri sýningu og ég gat ekki notið sýningarinnar af því að ég var allan tímann að hugsa hvenær ég ætti að standa upp og biðja hans. Svo við hliðina á mér sat fólk sem ég segi við heyrðu það er þarna leikari ég ætla að biðja hans. „Já enn gaman,“ segir fólkið. Og svo kom sýningarstjórinn og hann segir eitthvað svona: „Heyrðu passið hérna hátalarana.“ Og ég hugsaði: „Vá heyrðu það heyra þetta örugglega allir inn í græna herbergið.“ Ég held að það hafi bjargað mér að sýningarstjórinn kom þarna að þá fékk ég svona raunveruleikann. Bara ég er á sýningu, það er sýningarstjóri. Og ég fylltist svona af skömm, bara roðnaði allur líkaminn af skömm.“

Ásdís ræddi einnig við Guðmund Inga Þorvaldsson, leikara, sem kemur úr litlu þorpi í sveit. Segir hann mikla karlmennskuímynd hafa umlukið samfélagið og mikið brennivín. Konurnar hafi verið guðumlíkar verur, þær hafi alltaf tekið vel á móti öllum og að allir hafi fengið annan séns. Þá segir Guðmundur líka að mikill aðgangur hafi verið að klámi.

\"\"

Guðmundur Ingi Þorvaldsson segist hafa upplifað nokkur dramatísk ástarsambönd

„Þetta allt í bland verður svona kokteill þegar maður kemur út í lífið sem er kannski ekkert beinlínis hollur,“ segir Guðmundur og viðurkennir að hann hafi verið með skrítnar hugmyndir um karlmennsku, kynlíf, konur og nánd sem gerði það að verkum að á milli tvítugs og þrítugs hafi hann gengið í gegnum nokkur mjög dramatísk ástarsambönd.

„Þið vitið, einhver svona fíknihegðun inn í samböndum. Þessi ofboðslega þráhyggja, ég get ekki lifað án þín og að reyna að slíta sig svo lausan. Reyna að laga eitthvað af því að kynlífið var gott þó maður ætti ekkert sameiginlegt. Þessi hugmynd um að það sé mitt hlutverk að heila eitthvað fólk sem er veikt og þessi hugmynd um að eitthvað annað fólk eigi að gera mig heilt. Skilja ekki hvað heilbrigð ást er.“

Guðmundur lýsir því fyrir Ásdísi hvernig hann leitaði sér aðstoðar hjá SLAA sem eru tólf spora samtök sem aðstoða fólk sem glímir við kynlífs- og ástarfíkn.

Útskýrir hann fyrir henni frelsið sem hann upplifir í dag og hamingjuna við það að vera laus við þráhyggjuna og sjúku ástina sem hann eitt sinn upplifði.

Horfa má á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan: