Það sem skattborgararnir mega gera saman mega þeir ekki hver fyrir sig

Fjármálaráðuneytið greindi fyrir nokkrum dögum frá því að ríkissjóður hefði gefið út skuldabréf í evrum með hagstæðustu vöxtum í sögu lýðveldisins. Ærin ástæða er til að fagna þessum árangri. En á þessum peningi eru þó tvær hliðar eins og öðrum.

Ríkissjóður má sem sagt fyrir hönd allra skattborgaranna saman taka lán í evrum. Og þeir sem ábyrgð bera á þessum sameiginlega sjóði landsmanna hafa sannarlega ríka ástæðu til að fagna því að geta tekið lán í evrum á lágum vöxtum. Þeir benda réttilega á að það er allra hagur. Þjóðhagslega hagkvæmt eins og sagt er.

Satt best að segja mættu stjórnendur ríkissjóðs gera miklu meir úr fréttum af hagstæðum erlendum lánum og skýra betur út fyrir landsmönnum mikilvægi þeirra.

Það öfugsnúna við þessa frétt er hitt: Þegar kemur að hverjum og einum skattborgara segja þeir sem ábyrgð bera á sameiginlegum sjóði landsmanna allt aðra sögu. Þá kemur að því að lántaka í evrum samræmist ekki fullveldi landsins, sé of áhættusöm, hættuleg og því einfaldlega óheimil.

Satt best að segja mættu stjórnendur ríkissjóðs einnig skýra þennan tvískinnung betur út fyrir fólkinu í landinu. Hvers vegna má alþýðufólk og smærri fyrirtæki ekki njóta ávaxta af stöðugri og traustri mynt í sama mæli og ríkissjóður og helstu útflutningsfyrirtækin? Hvers vegna mega landsmenn ekki hver fyrir sig njóta þess sama og sameignlegur sjóður þeirra? Hvers vegna má ekki nota stöðuga og gjaldgenga mynt fyrir alla landsmenn?

Ríkissjóður lætur Landsvirkjun nota erlenda mynt. Hún selur fyrirtækjum á Íslandi í eigu útlendinga raforku í erlendri mynt. Það virðist engin áhrif hafa á fullveldið. Styrkir það kannski fremur en hitt.

Þá leyfir ríkissjóður helstu útflutningsfyrirtækjum að nota erlenda mynt. Þá er fullveldið ekki í hættu. En þetta veldur aftur á móti gríðarlegri samkeppnismismunun á innlendum markaði. Við sjáum til að mynda hvernig mörg forréttindafyrirtækin hafa verið að gleypa hin sem ekki eru í sömu aðstöðu.

Talsmenn ríkissjóðs mættu endrum og sinnum gera þeim fyrirtækjum sem hallar á í þessum viðskiptum grein fyrir því  hvers vegna slík mismunun er svo mikilvæg fyrir fullveldi landsins að þeirra mati. Skrifaði Jón forseti einhvern tíman um mikilvægi mismununar af þessu tagi?

En mismununin er ekki bara á milli þeirra fyrirtækja sem ríkissjóður telur að eigi að njóta forréttinda og hinna sem ekki verðskulda jafna stöðu á markaði. Ríkissjóði finnst einnig nauðsynlegt að eitt gildi fyrir eigendur forréttindafyrirtækjanna og annað fyrir launafólkið sem hjá þeim vinnur. Eigendurnir geta fjárfest með lánum á lágum vöxtum í erlendri mynt eins og ríkissjóður en launamennirnir verða að greiða hæstu vexti í Evrópu í krónum og verðtryggðum krónum vilji þeir koma sér þaki yfir höfuðið.

Í frjálslyndari armi Sjálfstæðisflokksins má stundum heyra lágvært hvísl um að mismunun af þessu tagi sé hvorki réttlát né þjóðhagslega hagkvæm. En í VG heyrast aldrei efasemdir.