Taka ekki við hælisleitendum

Í síðasta mánuði sendi Útlendingastofnun bréf til allra sveitarfélaga landsins til þess að kanna áhuga þeirra á að taka við hópi hælisleitenda. Af þeim 17 sveitarfélögum sem hafa svarað bréfinu hafa 15 hafnað þeim möguleika og aðeins tvö þeirra ætla að skoða málið betur. RÚV.is greinir frá.

Þau 15 sveitarfélög sem hafa nú þegar svarað Útlendingastofnun og sjá sér ekki fært að taka við hælisleitendum eru Árborg, Dalabyggð, Egilsstaðir, Fjallabyggð, Fjarðabyggð, Grindavíkurbær, Hvalfjarðarsveit, Hveragerðisbær, Kjósarhreppur, Reykjanesbær, Seltjarnarnes, Skagafjörður, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Vogar. Að sögn Útlendingastofnunar er listinn aðeins byggður á þeim svörum sem hafa borist og verið skráð.

Sveitarfélögin tvö sem hyggjast skoða málið betur eru Akureyri og Garðabær. Bæjarráð Akureyrar hefur falið bæjarstjóra að skoða málið áfram með sviðsstjóra fjölskyldusviðs og bæjarráð Garðabæjar hefur falið bæjarstjóra að hafa samband við Útlendingastofnun.

Útlendingastofnun er nú þegar með þjónustusamninga við Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarkaupstað, en þar sem umsóknum frá hælisleitendum hefur fjölgað mikið er ljóst að þeir duga ekki til.

Útlendingastofnun óskar því eftir að gera þjónustusamninga við sveitarfélög vegna tæplega 50 hælisleitenda. Þó kemur til greina að taka við minni hópum. Í samningunum er gert ráð fyrir ákveðnu daggjaldi sem sveitarfélögin fá til að standa undir húsnæði, fæði og þjónustu fyrir hópinn, auk þess sem gert er ráð fyrir stöðugildum til að sinna þessari þjónustu.

„Þannig að það er í sjálfu sér enginn beinn kostnaður sem fellur á sveitarfélagið sjálft,“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sviðsstjóri verndarsviðs hjá Útlendingastofnun, í samtali við RÚV.