Vegagerðin sprautaði 260 þúsund lítrum af hættulegu efni um allt land

Stýrihópur á vegum umhverfisráðherra hvatti Vegagerðina til að nota illgresiseyðinn Roundup til að draga úr áhrifum alaskalúpínu og kerfils í íslenskri náttúru. Þetta kemur fram í svörum við fyrirspurn Hringbrautar vegna málsins. Var stýrihópurinn skipaður af Svandísi Svavarsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra og núverandi heilbrigðisráðherra. Meðal þeirra sem sátu í stýrihópnum voru Jón Gunnar Ottóson, forstjóri Náttúrfræðistofnun Íslands og Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri. Um er að ræða illgresiseyði sem hefur verið bannaður í fjölmörgum löndum. Ódýrara var að dreifa hættulegu efni en að notast við umhverfisvænni máta.

Samkvæmt svari Vegagerðarinnar notaði hún yfir 1.300 lítra af illgresiseyðinum Roundup á árunum 2009 til 2016. Um er að ræða Roundup þykkni sem blandað er í vatn. Í samtali við Hringbraut staðfestu nokkrir starfsmenn Vegagerðarinnar að 1000 lítrum af vatni væri blandað við fimm lítra af Roundup þykkninu. Það þýðir að um 260 þúsund lítrum af vökva sem innihélt Roundup var dreift víðsvegar um Ísland. Að sögn Vegagerðarinnar hefur Roundup ekki verið notað síðan 2016.

Roundup inniheldur efnið Glyphosate, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að efnið gæti verið krabbameinsvaldandi. Um 9 þúsund dómsmál hafa verið höfðuð í Bandaríkjunum gegn Monsanto framleiðanda efnisins. Fjöldi landa um allan heim hafa bannað notkun á efnum sem innihalda Glyphosate, nú síðast í Austurríki. Þá hefur umhverfisráðherra Þýskalands sagt að bannað verði að nota efnið þar í landi frá árinu 2023. 

Í samtali við Hringbraut tjáði fjöldi núverandi starfsmanna og fyrrverandi starfsmanna Vegagerðarinnar að þegar þeir hafi blandað Roundup við vatn hafi þeir ekki fengið nein sérstök fyrirmæli um að notast við einhverskonar hlífðarbúnað. Á heimasíðu Matvælastofnunar er tekið fram að efnið sé sérstaklega hættulegt þeim sem vinna við að blanda það. Þar segir:

„Já, sérstaklega þeim sem vinna með glýfosat, við að blanda og úða því eða vinna á ökrum með erfðabreyttum jurtum sem eru úðaðir oft á vaxtartímanum. Það má búast við að einhverjar leifar séu enn til staðar þegar matvælin koma á diskinn okkar.“

Ekki vitað hvernig fyrirmælin bárust um að nota Roundup. Komu hugsanleg í tölvupósti eða í símtali

Í skriflegu svari til Hringbrautar segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, að ekki sé vitað hvenær Roundup var fyrst notað hjá Vegagerðinni.

„Ég veit ekki hvenær RoundUp var fyrst notað. Árið 2013 eða í lok árs 2012 fengum við hins vegar bréf frá stýrihópi umhverfisráðherra um aðgerðir til að draga úr neikvæðum áhrifum alaska lúpínu og kerfils þar sem hvatt er til að nota glyfosat og Vegagerðin er beðin um að nota glyfosat til að eitra með fram vegum til að draga úr útbreiðslu.“

Hringbraut óskaði eftir bréfinu sem stýrihópurinn sendi frá umhverfisráðuneytinu. Bergþóra Njála Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi umhverfisráðuneytisins, segir að ráðuneytið hafi ekki bréfið undir höndum og vísaði ráðuneytið á Vegagerðina.

„Okkur hefur ekki tekist að finna þetta bréf hér í okkar fórum. Á sínum tíma (2009) var settur á fót stýrihópur sem ætlað var að gera áætlun um að stemma stigu við ágengum tegundum, s.s. alaskalúpínu og skógarkerfli. Formennskunni deildu þáverandi forstjórar Landgræðslu ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það er mögulegt ef um er að ræða bréf frá þessum hóp að það hafi verið vistað hjá annarri hvorri stofnuninni. Annars ætti Vegagerðin að geta afhent þetta bréf, sé um formlegt bréf til stofnunarinnar að ræða.“ 

Hringbraut óskaði þá eftir bréfinu frá Vegagerðinni. Var þá sagt að fyrirmælin hefðu mögulega ekki komið með formlegu bréfi heldur hugsanlega í tölvupósti eða jafnvel símtali.

„Við nánari skoðun virðast þessi fyrirmæli ekki hafa komið í bréfi, hugsanleg í tölvupósti eða jafnvel í símtali, en vísað er til þess í umhverfisskýrslu Vegagerðarinnar frá árinu 2014.“ 

Í umhverfisskýrslu Vegagerðarinnar frá árinu 2014 kemur fram að stýrihópurinn mælti sérstaklega með illgresiseyðinum Roundup, en tóku þó sérstaklega fram að þeir mæltu ekki með honum við vatnsföll. Á heimasíðu Vegagerðarinnar er síðasta umhverfisskýrsla frá árinu 2016 og vantar því umhverfisskýrslur frá árunum 2017 og 2018.

„Fulltrúar stýrihóps umhverfisráðherra, sem hefur það hlutverk að finna leiðir til að draga úr neikvæðum áhrifum alaskalúpínu og skógarkerfils á náttúru Íslands, hafa lýst áhyggjum af því að lúpína virðist á sumum svæðum fylgja framkvæmdum í vegagerð. Þessir fulltrúar hafa óskað eftir því að Vegagerðin reyni að hindra útbreiðsluna frekar en nú er og hafa m.a. mælt með notkun Roundup, nema við vatnsföll“

Í bæklingi sem gefinn var út árið 2013 á vegum stórhópsins kemur fram að ávalt skuli líta á úðun sem neyðarrúræði og samráð skuli hafa við fagaðila áður en það gerist. Ekki er tekið fram við hvaða fagaðila skal ræða. 

„Ávalt skal líta á úðun sem neyðarúrræði og hafa skal samráð við fagaðila áður en hafist er handa.“ 

Í skýrslu frá árinu 2010, sem Náttúrufræðistofnun Íslands og Landgræðsla ríkisins sendu til umhverfisráðherra, er tekið sérstaklega fram að mjög fáar rannsóknir sýni neikvæð áhrif á dýralíf. Þá er sérstaklega tekið fram í skýrslunni að efnið sé ekki krabbameinsvaldandi.

Glyphosate er breiðvirkt vatnsleysanlegt efni sem drepur allan grænan gróður sem það kemst í snertingu við. Það hefur lítil áhrif á dýralíf og engin þekkt áhrif á fólk. Mjög fáar rannsóknir sýna neikvæð áhrif á dýralíf. Langtímaáhrif af efninu eru því engin svo vitað sé. Efnið er ekki krabbameinsvaldandi.

Vegagerðin var ekki eini opinberi aðilinn sem notaði Roundup, því Reykjavíkurborg notaði að meðaltali 60 lítra á ári á árunum 2007 til 2016. Þá voru notaður 30 lítrar árið 2017 og 1 lítir árið 2018. Sama ferli er hjá Reykjavíkurborg og Vegagerðinni með íblöndun, en blandað er um fimm lítrum af Roundup við þúsund lítra af vatni.

Í skriflegu svari til Hringbrautar sagði Bjarni Brynjólfsson, upplýsingarstjóri Reykjavíkurborgar, að notað hafi verið meira af efninu á árum áður þar sem það var talið nánast hættulaust.

„Það var meira notað af Round up hér áður enda var efnið talið nánast hættulaust og talið að það brotnaði niður í náttúrunni. Efnið var notað fyrst og fremst sem aðgerð til að breyta ástandi t.d. áður en plantað væri í beð.  Það var því ekki verið að nota það sí endurtekið á sama svæðinu nema mögulega að einhverju leyti í ræktunarstöð þar sem eru framleiddar plöntur. Þó Round up hafi ekki verið tekið alfarið út þá er best að þurfa ekki að nota efni og hjá garðyrkjunni hefur verið reynt að leita annarra leiða.“

Í frétt á heimasíðu Vegagerðarinnar frá því í september árið 2013 er talað um að til sé umhverfisvænni leið en að nota illgresiseyðinn Roundup. Var um að ræða sérstakan tækjabúnað frá Danmörku sem kostaði á þeim tíma 13 milljónir, auk ökutækis til að setja búnaðinn á. Ekki var farið í kaup á þeim búnaði þar sem sagt var að styrkur hafi ekki fengist fyrir kaupunum hjá rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Vegagerðin fékk sem sagt ekki styrk hjá sjálfum sér, alla vega ekki í þetta skiptið:

„Vegagerðin hefur hug á að hætta notkuninni alveg en umhverfisvænni aðferðir sem hafa verið til skoðunar eru mun dýrari. Gæðadeild Vegagerðarinnar sótti um styrk til rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar vorið 2013 til að fá búnað til reynslu hingað til lands til að gera rannsókn á virkni aðferðarinnar við íslenskar aðstæður. Styrkurinn fékkst ekki í það sinn en áfram verður unnið að því að finna umhverfisvænar lausnir.“

Ekki náðist í Jón Gunnar Ottósson, forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, vegna málsins þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.