Strákar mega ekki fela tilfinningar sínar

Leikstjóri verðlaunamyndarinnar Hjartasteins í áhugaverðu viðtali í Mannamálií kvöld:

Strákar mega ekki fela tilfinningar sínar

Ungir strákar eru sem betur fer farnir að opna sig miklu meira hvað varðar tilfinningar sínar, kvíða og viðkvæmni, en því var hins vegar ekki að fagna þegar ég var á unglingsaldri - og hvað þá hjá eldri kynslóðum karla sem birgðu meira og minna allt inni.

Þetta segir Guðmundur Arnar Guðmundsson, leikstjóri verðlaunamyndarinnar Hjartasteins sem farið hefur sigurför um heminn á síðustu mánuðum, en hér heima sópaði hún til sín Edduverðlaunum í febrúar og hefur fengið bestu meðmæli íslenskra kvikmyndagagnrýnenda. Hann er gestur Mannamáls í kvöld í einkar einlægu viðtali um lífið og listina.

Myndin fjallar á manneskjulegan og næman hátt um uppvaxtartíma ungra vina, en hún byggir að hluta á upplifun og minningum Guðmundar sjálfs sem missti náinn vin sinn á Þórshöfn í æsku, en lífið virtist blasa við þeim pilti sem öllum að óvörum tók líf sitt, aðeins sautján ára gamall.

Guðmundur lýsir því afar vel í viðtalinu hvernig þessi atburður fékk á hann og aðra vini hans, en hann ræðir líka af hispursleysi um hugarfar ungra stráka sem oft markast af rótleysi og tilfinningalegum hnúti, en sjálfur þekki hann það hlutskipti frá æskuárum sínum, jafnt nyrðra sem í Ártúnsholtinu í Reykjavík, en hann missti fótanna í skóla og stefndi á refilsstigu áður en hann fann sjálfan sig í listinni með glæsilegum árangri.

Hjartasteinn er enn í sýningu í Háskólabíói og verður myndin líklega einnig tekin til sýninga í Bíó Paradis í sumar.

Mannamál byrjar klukkan 20:30 í kvöld. 

 

 

Nýjast