Sprungu úr hlátri í þingsal – sigurður ingi ósáttur – „rugl“ - myndband

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra brást reiður við í umræðum um atkvæðagreiðslu fjárlaga 2020. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar sagði að ríkisstjórnin hefði í gærlvöldi panikkað. Sigurður Ingi fór í pontu og svaraði að ef það væri panik í ríkisstjórninni, þá hefði gleymst að láta hann vita af því. Brutust þá út mikil hlátrasköll. Fjallað var um málið á Vísi.

Þorgerður Katrín sagði í pontu:

„Það vita það allir að það var panikk hér hjá ríkisstjórnarflokkunum og hæstvirtur forsætisráðherra reyndi einmitt að koma til móts við óskir og beiðni héraðssaksóknara í gær um aukin fjárframlög. En hvað gerðist? Það er kominn undanhald í liðið og það þarf auðvitað að ramma alla liðsmenn inn í eitt og sama formið.“

Sigurður Ingi steig síðan í pontu og sagði umræðuna snúast orðið um annað en fjárlög.

„Ég veit ekki hvort ég ætti að eyða orðum á það sem að háttvirtur þingmaður Birgir Ármannsson kallaði rugl. Ég ætla að gera það samt, vegna þess að hafi verið panikk í ríkisstjórninni þá hefur alveg gleymst að láta formann Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vita af því.“

Við þessi orð mátti heyra fjölmarga þingmenn skella upp úr. Sigurður Ingi hélt svo áfram og gagnrýndi stjórnarandstöðuna. Hér fyrir neðan má sjá ræðu Þorgerðar og Sigurðar Inga: