Sóttur á geðdeild og sendur úr landi

Andlega veikir hælisleitendur sem hafa fengið neitun um dvalarleyfi hafa verið sóttir á geðdeild og fluttir úr landi. Magnús Davíð Norðdahl er lögmaður ungs manns frá Afganistan sem ríkisslögreglustjóri ætlaði að sækja á geðdeild í nótt. Magnús segir þetta bæði ólöglegt og ómannúðlegt. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Unga manninn átti að flytja til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og staðfest 1. apríl af kærunefnd útlendingarmála. Þann sama dag reyndi maðurinn að kveikja í sér í húsnæði sem hann bjó í á vegum Útlendingastofnunar. Í kjölfarið var hann nauðungarvistaður á geðdeild.

Í gær fékk svo Magnús tilkynningu frá ríkislögreglustjóra um að skjólstæðingur hans yrði sóttur á geðdeild klukkan fjögur um nótt og fluttur úr landi. Magnús sagði

„Er það með ólíkindum að það hafi staðið til af hálfu íslenskra yfirvalda að framkvæma brottvísun þegar þessi ungi maður er nauðungarvistaður á lokaðri geðdeild. Það er rangt, ómannúðlegt og að mínum dómi ólöglegt.“

Eftir kröftug mótmæli var þessari ákvörðun frestað að sinni. María Einisdóttir framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala sagði að fólk væri ekki útskrifað nema það væri metið hæft til útskriftar. Í fréttum Stöðvar 2 sagði María:

„Aðspurð um hvort eðlilegt sé að fólk sé útskrifað úr bráðainnlögn um miðja nótt segir hún það geta verið þannig ef fólk er á leið í flug.“