Guðmundur Snorri Ingimarsson fæddist 22. febrúar 1948 í Reykjavík. Hann lést á Landspítala háskólasjúkrahúsi við Hringbraut 14. ágúst 2019. Snorri kvæntist 28. október 1967 Kolbrúnu Finnsdóttur og eignuðust þau tvö börn. Greint er frá andláti Guðmundar Snorra í Morgunblaðinu og á vef Krabbameinsfélagsins.
Snorri var einn fremsti læknir sem Íslendingar hafa átt. Þá var hann fyrsti forstjóri Krabbameinsfélag Íslands. Lét hann mikið á sér kveða í að koma með nýjar lausnir gegn þessum grimma sjúkdómi. Í minningargreinum í Morgunblaðinu segir að Snorri hafi verið mjög áhugasamur um krabbamein og krabbameinsfræði og lét sig mjög varða málefni þeirra sem greinast með krabbamein, bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi. Þá voru lífsgæði fólks sem greinist með krabbamein honum hugleikin og í þeim málefnum var hann einn af frumkvöðlunum hér á landi. Heimahlynning, sem nú þykir sjálfsögð þjónusta, var meðal annars stofnuð fyrir hans tilstuðlan. Hann innleiddi ný sjónarmið og meðferðarúrræði í heilbrigðiskerfi Íslendinga sem hafa orðið til að bæta hag sjúklinga til muna. Alla ævi var hann boðinn og búinn að liðsinna öðrum, í starfi snerist það um lækningar og hjúkrun, lina þjáningar og bæta heilsu.
Árið 1970 nam Snorri læknisfræði við Karólínska læknaháskólann. Sérgrein hans voru krabbameinslækningar. Hann varði doktorsritgerð sína árið 1980 og var veitt dósentgráða við Karólínska institutet 1984. Fjölskyldan flutti aftur til Íslands árið 1981. Snorri starfaði sem sérfræðingur í krabbameinslækningum við Landspítalann 1982-1984.
Hann var forstjóri Krabbameinsfélags Íslands 1984-1988 og sérfræðingur við heilsuhæli NLFÍ í Hveragerði 1988-1991.
Snorri sneri sér að geðlækningum 1991 og starfaði sem sérfræðingur á geðdeild Landspítala 1994-2000 en eftir það sem sjálfstætt starfandi geðlæknir með eigin lækningastofu til ársins 2014.
Áhugi Snorra beindist að líkn og líknarmeðferð, sem hann kynnti sér bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, en einnig sorg og sorgarviðbrögðum. Hann hélt fyrirlestra víða um þessi efni.
Hann var einn af stofnendum Styrks, samtaka krabbameinssjúklinga og aðstandenda þeirra. Hann vakti einnig athygli á heimahlynningu sem Krabbameinsfélag Íslands setti á laggirnar árið 1986.
Þá segir í minningargrein í Morgunblaðinu um Snorra:
„Hann gat sér gott orð á námsárunum í Stokkhólmi og við sem vorum komin til starfa hér heima glöddumst þegar spurðist að hans væri von í okkar fámenna hóp. Hann hafði lagt sig eftir að rannsaka efni, sem ætlað var að efla varnarkerfi líkamans gegn illkynja meinum og unnt var að nýta ásamt skurðlækningum, krabbameinslyfjameðferð og geislameðferð.“
Valgerður Sigurðardóttir formaður Krabbameinsfélag Íslands segir:
„Snorri flutti fjölda erinda um krabbamein og málefni þeim tengd. Hann þýddi rit og skrifaði og miðlaði til lærðra og leikra. Þar nýtti hann bæði fagþekkingu sína sem krabbameinslæknir og geðlæknir og eigin reynslu. Snorri var afar öflugur liðsmaður Krabbameinsfélagsins og aðildarfélaga þess og starfaði með þeim í áratugi, meðal annars í stjórn félagsins á árunum 1999 til 2001. Hann var ávallt skammt undan, til hans var alltaf gott að leita.
Hann var kjörinn í heiðursráð Krabbameinsfélags Íslands árið 2012. Snorri var alltaf kærkominn gestur hjá félaginu í Skógarhlíðinni og hjá Krabbameinsfélaginu og aðildarfélögum þess er Snorra minnst með mikilli hlýju, virðingu og þökk.“
Útför Snorra fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 28. ágúst 2019, klukkan 15.