Snædís eltir fólk sem fer út fyrir þægindaramman í þáttunum eldhugar

Snædís Snorradóttir mun sjá um þriðju seríu Eldhuga sem sýnd er í haust á sjónvarpsstöð Hringbrautar. Þættirnir hafa vakið mikla lukku en í þeim fræðumst við um fólk sem að fer aðeins út fyrir þægindaramman, skarar fram úr í sinni grein og er oftar en ekki aðeins á jaðrinum. Þættirnir verða í senn óheflaðir, frjálslegir, skemmtilegir og fræðandi.

Nú ert þú að taka við þáttunum sem áður voru í umsjón Péturs Einarssonar – Hverju mega áhorfendur búast við?

„Við verðum mikið í jaðaríþróttum, ég verð með nokkra þætti þar sem mótorhjól verða í aðalhlutverki og ég er að elta þrjá unga menn á mjög stórt mótorkross mót núna til Hollands. Áfram munum við elta Eldhugana um allar trissur. Ég er aðallega að leita af þessum „underground“ ofurhugum sem leita að verstu veðrunum til að fá hæstu öldurnar til þess að fara á brimbretti. Ég mun hitta fólk sem byrjar alla daga á að kíkja á veðurspárnar því sportið er þeirra ástríða frá a-ö,“ segir Snædís um komandi seríu.

Getur þú sagt okkur frá einhverjum spennandi viðmælendum?

„Ég er mjög spennt fyrir því að hitta ungan mann sem heitir Rúnar Pétur. Hann býr meirihlutann af árinu víðs vegar um Evrópu í húsbílnum sínum og leitar að krefjandi fjallstindum sem hann gengur á með snjóbrettið sitt á bakinu og rennir sér svo niður. Planið er að fara með honum austur og ganga upp snæfellið. Kauði hefur svo sannarlega lent í ævintýrum.“

Fyrsti viðmælandi Snædísar var Hákon Kjalar Hjördísarson sem býr á eyjunni Traustholtshólmi í Árnessýslu. Ömmusystir Hákonar keypti eyjuna sem féll í arf móður hans og að lokum Hákonar. Ákvað Hákon að gera sér það kleift að búa á eyjunni með því að skipuleggja upplifanir fyrir fólk sem kemur til hans. Í ferðinni til Traustholtshólma tengir Hákon fólk við náttúruna með ýmsum hætti. Skipuleggur hann skemmtilegar upplifanir þar sem fólk getur komið og fengið aðgang að svokölluðu Jurt, sem er einskonar tjaldkofi. Þá gengur hann með þeim um eyjuna og kynnir þau fyrir ræktun sinni ásamt því að veiða með þeim villtan lax í net sem hann svo eldar fyrir þau.

Mótorhjólamenning Íslands

Í næsta þætti sem sýndur er í kvöld skoðar Snædís mótorhjólamenninguna á Íslandi. Hún hittir formann Sniglanna og fer á rúntinn á götuhjóli. Þá fer hún einnig á Íslandsmeistaramótið í mótorkross þar sem hún hittir Aron Ómars sem hefur verið í sportinu í 20 ár.

Fylgist með á sjónvarpsdagskrá Hringbrautar í kvöld klukkan 21:30.