21: ríkustu börnin saman í skóla

„Það hefur orðið breyting á því hvernig fólk hugsar þegar það velur sér hverfi til að búa í\", segirBerglind Rós Magnúsdóttur, dósent í félagsfræði menntunar við Háskóla Íslands og vísar þar til að stéttaskipting á milli hverfa og skóla hefur aukist undanfarna tvo áratugi í Reykjavík og segir það óheillaþróun þar sem hún skerði tækifæri barna til framtíðar.

Ýktustu dæmin eru til dæmis þau að börn mjög efnaðra og menntaðra foreldra safnast saman í sömu skólana á meðan hinir skólarnir verða einsleitnari hjá hinum jaðarsettustu varðandi tekjur og uppruna.  

Skólar ríku barnanna

„Það eru að koma tilfelli sem vekja upp ákveðnar áhyggjur“, segir Berglind Rós. „Við vitum að það eru ákveðin hverfi á Höfuðborgarsvæðinu þar sem meira en helmingur foreldra eru í efstu tuttugu prósentunum í tekjuhópum landsins”.  Annað hvert barn í skólum þessara hverfa eru þannig ríkustu börn landsins.

„Svo erum við með aðra skóla þar sem menningarauðmagnið er mjög hátt og þá erum við kannski með meira en helming barna sem eiga foreldra með meistara eða doktorsgráðu”, segir Berglind Rós.  Á hinum enda skalans séu hinir jaðarsettari, minna menntaðir foreldra og tekjulægri. Á milli þessara skóla séu þó enn mjög blandaðir skólar.

 Áhrif menntaðra foreldra mikil

Árið 1997 voru 30 prósent foreldrar grunnskólabarna á Íslandi með háskólamenntun en í dag er hlutfallið 60 prósent. Aukningin dreifist mismunandi á skólana, að sögn Berglindar Rósar.

„Það sem við sjáum er að menntun foreldra hefur gríðarleg áhrif á skólastarfið, menntun og stöðu skólanna. Þetta skipti miklu máli þegar gert er ráð fyrir því að skólar séu í samkeppni eins og hefur aukist alls staðar á Norðurlöndunum. Skólar er í raun með vörumerki sem fólk velur á milli“, bendir hún á.

Rannsókn á stéttaskiptungu á milli skóla

Í stórri samanburðarrannsókn á milli Reykjavík, Helsinki og Amsterdam  er skoðaður tekju- og menntunarmunur foreldra grunnskólabarna og hvernig skólar eru samsettir í því ljósi. Rannsóknin nefnist MAPS og er samanburðarrannsókn á stétta- og menningarbundnu skólastarfi í borgunum þremur. Berglind Rós stýrir íslenska hluta rannsóknarinnar.

Berglind Rós nefnir að í viðmiðunarborginni Helsinki sá tekjumunurinn áttfaldur á milli hverfa en Ísland sé ekki komið svo langt í stéttaskiptingu skólanna. „Hann er margfaldur hér líka en í rauninni er Helsinki ýktari ef eitthvað er. Háskólamenntun fer allt niður í tvö prósent í sumum skólum í Helsinki, eða tvö prósent háskólamenntaðra foreldra og allt upp í 55 prósent”.

„Við vitum að það er alltaf einhver aðgreining á milli skóla en hún verður óæskileg þegar hún er vegna jaðarsettra og undirskipðra hópa í einum og sama skólanaum og þegar hinn pólinn er skoðaður, þeir sem búa við mikil menningarleg eða fjárhagsleg forréttindi í svo öðrum skóla”.

Skólar og hverfi stimpluð

Sumir skólar verða þá stimplaðir verri en aðrir. „Það er þess vegna sem við erum að tala um óæskilega aðgreiningu sem veldur stimplun. Þá er ákveðnu fólki sem tilheyrir ákveðnum hverfum eignaðir ákveðnir eiginleikar”. Þessi stimplun og eiginleikar geta því torveldað eða stöðvað börn úr tilteknum skólum til að brjótast til betra lífs.  

„Þetta eru fordómar sem byggjast á búsetu. Skóli er alltaf í meiri mæli að verða ákveðið vörumerki” segir hún og fólk sé stimplað þegar komið er út í lífið eftir því í hvaða hverfi það bjó og hvaða skóla það sótti.

Mýtan um stéttlaust samfélag

Mýtan um að Ísland sé stéttlaust samfélag er seig en þessi nýja rannsókn skorar á hólm þessa trú manna um að hér séu allir jafnir á landi. Aukinn tekjumunur víða í löndum er meðal þess sem kallar á að félagsleg og menningarleg aðgreining sé skoðuð nánar ofaní kjölinn, auk fjölskyldutengsla við viðkomandi land en í dag er fjölbreyttari menningarsamsetning innan samfélaga flestra vestrænna landa.

Markmiðið MAPS er að greina stöðuna í skólaumhverfinu, þróa kennslufræðilegar lausnir og stefnumótandi hugmyndir að borgarskipulagi sem næra fjölbreytileika hverfa- og skólasamfélagsins, efla samheldni og bjóða upp á viðeigandi stuðning í námi.