Segja naglann fara með rangt mál

Forsvarsmenn Krabbameinsfélags Íslands (KÍ) segja Jóhannes V. Reynisson hjá Bláa naglanum fara algerlega með rangt mál hvað varðar rannsóknir félagsins á krabbameini í körlum. Jóhannes hefur haldið því fram í skrifum sínum að karlar hafi algerlega verið afskiptir í starfsemi KÍ.

\"Þetta er alrangt,\" segir í andsvari Krabbameinsfélagsins sem Hringbraut hefur borist, en vefurinn vitnaði nýlega í fésbókarfærslu Jóhannesar þar sem hann hélt fram áðurnefndum fullyrðingum. \"Félagið hefur unnið að fjölmörgum rannsóknum um krabbamein í blöðruhálskirtli frá árinu 1992, eða alls 32,\" segir enn fremur í svarinu: \"Niðurstöður margra þessara rannsókna hafa verið birtar í virtum erlendum læknaritum.\"

KÍ bendir á að starfsemi félagsins, meðal annars Ráðgjafarþjónusta þess, sé opin bæði körlum og konum: \"Krabbameinsskráin rannsakar bæði mein karla og kvenna og fræðsluefni er framleitt fyrir bæði kynin. Einungis starfsemi Leitarstöðvar snýr, eðli sínu samkvæmt, eingöngu að konum þar sem leitað er að krabbameinum í brjóstum og í leghálsi.\"

Að auki segir í tilskrifi félagsins að krabbameinsskrá þess nái 99% allra krabbameina sem greinast hjá þjóðinni: \"Hún stendur bæði að sjálfstæðum rannsóknum og tekur þátt í fjölþjóðlegum rannsóknum. Síðustu 20 ár hefur verið sett mikil vinna í að skrá og afla gagna frá þvarfæraskurðlæknum um allt land varðandi blöðruhálskirtilskrabbamein þar sem meðal annars er hægt að sjá á hvaða stigi sjúkdómurinn greinist og hve stórt hlutfall karla með staðbundinn sjúkdóm fer í vaktaða bið í stað skurðaðgerðar.\"

Bent er líka á að á vegum KÍ hafi 13 rannsóknum verið beint sérstaklega að blöðruhálskrabbameini á árunum 1992-2016: \"Í samvinnu við norrænar krabbameinsskrár voru gerðar 7 rannsóknir 1996-2017. Í samvinnu við Miðstöð í lýðheilsuvísindum var unnið að 5 rannsóknum um meinið á árunum 2012-2018, í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu 3 rannsóknir á árunum 2011-2016 og skráin tók þátt í 4 alþjóðlegum og evrópskum rannsóknum 2009-2016,\" segir í svari KÍ við fullyrðingum Bláa naglans.