Segir meðferð á dýrunum hjá Fiskó hrikalega - Ólafur Ingi: „Okkur var verulega misboðið“

Segir meðferð á dýrunum hjá Fiskó hrikalega - Ólafur Ingi: „Okkur var verulega misboðið“

Ólafur Ingi Stefánsson var ásamt kærustu sinni í versluninni Fiskó í Garðabænum í gær þegar þau tóku eftir illri meðferð á þremur músum sem hafðar voru saman í búri.

„Okkur var verulega misboðið þegar við sáum þrjár mýs saman í búri sem litu ótrúlega illa út,“ segir Ólafur Ingi sem greinir blaðamanni Hringbrautar frá því að fleiri hafi upplifað svipaðar aðstæður hjá dýrum í umræddri dýrabúð.

„Þegar ég ræddi við manninn sem vann í afgreiðslunni sem við höldum að sé eigandinn sagði hann að þetta væri eðlilegt og það væri ekkert hægt að gera af því að þetta eru félagsdýr og að þau þyrftu að vera saman í búri. Annars virtist hann frekar áhugalaus um þessa athugasemd,“ sagði Ólafur í samtali við blaðamann og segir málið hrikalegt. 

Tilkynntu meðferðina

Ólafur segist hafa bent eigandanum á það hversu illa mýsnar litu út og að þær hafi greinilega verið í sárum, líklega vegna slagsmála, en að hann hafi ekkert kippt sér upp við það. Í kjölfarið hafði Ólafur samband við MAST og tilkynnti illa meðferð á dýrum.

„Það væri allavegana mannsæmilegt að aðskilja þær um stund á meðan þær jafna sig.“

Nýjast