Stakk áliti ríkissaksóknara undir stól

Þann 20. maí 2014 sendi Ríkissaksóknari álit sitt til stjórnenda Seðlabankans þess efnis að ekki væru til staðar nothæfar refsiheimildir vegna ætlaðra brota á reglum gjaldeyriseftirlits Seðlabankans.  Seðlabankinn hefur aldrei birt opinberlega rökstuðning Ríkissaksóknara og stakk honum þannig undir stól ef svo má að orði komast og hélt áfram að rannsaka og ljúka málum fjölda fyrirtækja og einstaklinga með sáttum um greiðslu sekta vegna ætlaðra brota á gjaldeyrisreglum bankans.   

Vekur þetta m.a. upp spurningar hvort þeir lögaðilar sem sættu þessari meðferð af hálfu Seðlabankans munu nú stíga fram og krefja bankann um endurgreiðslur?  Þetta kemur m.a. fram í þættinum Atvinnulífið sem er á dagskrá Hringbrautar kl. 20.30 í kvöld. Þar verður m.a. fjallað um rannsókn Seðlabankans á hendur Samherja hf. en sú rannsókn og kærur sem fylgdu í kjölfarið tóku á fimmta ár þar til þeim lauk með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur fyrr á þessu ári. Seðlabankinn hafði þá eytt mikilli vinnu í málin sem ekkert kom út úr.  Þetta er síðari þáttur af tveimur um starfsemi gjaldeyriseftirlits Seðlabankans en sá fyrri var á dagskrá Hringbrautar þann 3. október s.l. og fjallaði einkum um Aserta-málið.  Þátturinn er aðgengilegur á vefsvæði Hringbrautar.