Varpar ábyrgð á húsleit samherja yfir á sérstakan saksóknara

Í hljóðbroti af samtali Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf við Má Guðmundsson, Seðlabankastjóra kemur m.a. fram að Seðlabankastjóri vill nú ekkert kannast við að hafa stjórnað húsleit sem fram fór í höfuðstöðvum Samherja á Akureyri og á skrifstofu félagsins í Reykjavík þann 27. mars 2012.  Þetta samræmist ekki fréttatilkynningu sem bankinn bæði birti á heimasíðu sinni og sendi víðsvegar um heim 1 klst. eftir að umrædd húsleit hófst.  Hlýða má á þetta hljóðbrot í þættinum Atvinnulífið sem er á dagskrá Hringbrautar kl. 20.30 í kvöld.  Í þætti kvöldsins verða birt fleiri hljóðbrot af samtölum Seðlabankastjóra við forstjóra Samherja hf. Þess má geta að Már Guðmundsson sá sér ekki fært að þiggja boð þáttastjórnanda um að svara gagnrýni sem að störfum hans og bankans beindust, sökum anna.

Umsjónarmaður er Sigurður K. Kolbeinsson en kvikmyndataka var í höndum Friðþjófs Helgasonar.