Saga fjallamennsku á íslandi í 90 ár

Fyrsti þáttur nýrrar þáttaraðar um 90 ára sögu Ferðafélags Íslands verður frumsýndur á Hringbraut í kvöld klukkan 21:30, en þar fræðir sjónvarpsmaðurinn Sigmundur Ernir Rúnarsson áhorfendur sína um ferðamennsku hér á landi, allt frá landnámi til okkar daga.

Þættirnir eru unnir í samvinnu við Ferðafélag Íslands sem stofnað var á haustdögum 1927 og fagnar því 90 ára afmæli síðar á þessu ári. Og sagan er bæði fjölþætt og fróðleg í meira lagi, enda fjallar hún um landkönnun Íslendinga á þeim stærsta hluta landsins sem telst til öræfanna, en lengi vel lá leyndarhjúpur yfir þeim firnindum öllum, blandinn óhug fólksins niðri í byggðum sem trúði því staðfastlega að útilegumenn og forynjur, skessur og skepnur ógurlegar biðu breyskra manna þar uppi. Bændur og vermenn, ljósmæður og landpóstar fóru því með gát inn til landsins fram eftir öldum, gjarnan alvopnaðir, þess albúnir að mæta örlögum sínum á auðnum uppi.

Ferðafélagsþættirnir eru fjórir að tölu og verða sýndir næstu fimmtudagskvöld á Hringbraut. Í þeim fyrsta munu fróðir menn á borð við Valgarð Egilsson, Ólínu Þorvarðardóttur og Hjörleif Guttormsson segja áhorfendurm frá fyrstu hálendisförunum hér á landi og því rofi sem seinna varð á öræfaferðum vegna langvarandi kuldaskeiðs sem olli því að bithagar minnkuðu og hestaferðir urðu fyrir vikið erfiðari yfir hæstu heiðar, jafnvel fyrir biskupa sem reyndu þó að vísitera söfnuð sinn við illan leik yfir hraunbreiður og eyðisanda.

Í öðrum þættinum er meðal annars fjallað um aðdragandann að tilurð Ferðafélags Íslands, en þar segir leiðsögumaðurinn og rithöfundurinn Páll Ásgeir Ásgeirsson áhorfendum frá öllum þeim atlögum sem gerðar voru að stofnun þess, en andi frumherjanna svífur þar einnig yfir vötnum í frásögnum manna á borð við Ara Trausta Guðmundsson, Gerðar Steinþórsdóttur og Jóhannesar Ellertssonar, svo og félaganna Höskuldar Jónssonar og Ólafs Arnar Haraldssonar, fyrrverandi og núverandi forseta FÍ, sem báðir voru aldir upp í fjallaskálum.

Í þriðja þættinum er sagt frá uppgangstíma félagsins og ferðamennsku hér á landi, en vinsældir fjallaferða hafa aukist svo mjög á undanliðnum áratugum að líkja verður við viðhorfsbreytingu almennings. Frá þessu kunna sagnakonurnar Sigrún Valbergsdóttir og Brynhildur Ólafsdóttir að segja, í slagtogi við lækninn Tómas Guðbjartsson og lögmanninn Helga Jóhannesson, en allt þetta fólk tengist leiðsögu um landið og fjölbreyttum og nýstárlegum verkefnum á vegum FÍ, en þau lýsa því á hrífandi hátt hvernig fjallamennsku getur róað og bætt jafnvel erfiðasta fólk! 

Í fjórða þættinum er loks fjallað um hlutverk Ferðafélagsins á nýrri öld og framtíðarhorfur í ferðamennsku og túrisma á eyjunni bláu, svo og náttúruvernd og áskoranir í umhverfismálum, en ásamt ofantöldum leggur þar Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ sitthvað til málanna, svo og Ingvar Teitsson, fyrrverandi formaður Ferðafélags Akureyrar sem var fyrsta aðildarfélag FÍ á fyrri hluta síðustu aldar, á þeim tímum þegar rútuferð yfir í Vaglaskóg tók allan daginn, ef ekki helgina, eins og Ingvar rifjar skemmtilega upp í þáttunum, þar sem hann trítlar um Glerárdalinn með þáttastjórnanda, sem er ekki alls kostar ókunnugur þeim slóðum.

Ferðafélagsþættirnir eru stórskemmtileg frásögn af ævintýralegum uppgangi ferðamennsku á Íslandi og einstök heimild um þann lifandi áhuga sem landsmenn hafa haft af landi sínu, náttúru, menningu og sögu.

Það er Haukur Sigurbjörnsson sem annast kvikmyndatöku og hljóðstjórn þáttanna, Oddur Sigmunds Báruson semur tónlist þeirra og stjórn upptöku er í höndum þáttastjórnandans Sigmundar Ernis.

Samstarfsaðilar Hringbrautar og Ferðafélagsins við gerð þáttaraðarinnar eru Arion banki, Fjallakofinn, Valitor og Vínbúðin.

Fyrsti þátturinn er frumsýndur sem fyrr segir klukkan 21:30 í kvöld.