Róbert trausti til liðs við hringbraut

Róbert Trausti Árnason, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi sendiherra, tekur við starfi fréttastjóra Hringbrautar.is um áramótin.

Auk þess að skrifa fréttir og stýra fréttaflutningi á vef Hringbrautar mun Róbert Trausti skrifa pistla og fréttaskýringar á Hringbraut.is og stýra vikulega sjónvarpsþættinum Heimsljósi á sjónvarpsstöðinni Hringbraut um utanríkis-og alþjóðamál.

Róbert Trausti er stúdent frá MR, lauk BA gráðu frá HÍ í stjórnmálafræði og MA gráðu frá Queen´s háskóalnum í Kanada í alþjóðasamskiptum.  Róbert Trausti starfaði á fréttastofu RÚV sem þulur og fréttalesari á námsárum. Hann var við störf hjá Atlantshafsbandalaginu í aðalstöðvum þess í Belgíu áður en hann tók til starfa hjá utanríkisþjónustu Íslands þar sem hann gegndi stöðu skrifstofustjóra Varnarmálaskrifstofu, var ráðuneytisstjóri og sendiherra Íslands í Danmörku, Tyrklandi, Litháen og Bosníu-Herzegovínu. Róbert Trausti var forsetaritari um tíma en tók við starfi forstjóra Keflavíkurverktaka árið 2000.

Síðustu 9 ár hefur Róbert Trausti starfað hjá Samtökum atvinnulífsins sem verkefnastjóri Evrópumála með aðsetur í Brussel og Reykjavík.

Hann er kvæntur Klöru Hilmarsdóttur cand.theol. og eiga þau tvo uppkomna syni.

Guðmundur Örn Jóhannsson, útgáfustjóri Hringbrautar, býður Róbert Trausta Árnason velkominn til starfa og segir að það sé mikill styrkur fyrir Hringbraut að fá til samstarfs svo reyndan og öflugan mann enda falli hann vel að þeim sóknaráformum sem Hringbraut hafi og muni hrinda í framkvæmd á nýju ári. Vefurinn Hringbraut.is muni eflast til mikilla muna með honum.

Sigmundur Ernir Rúnarsson er dagskrárstjóri sjónvarps og Sigurjón M Egilsson er ritstjóri Þjóðbrautar en þeir eru bæði í útvarpi Hringbrautar fm 89,1 og í sjónvarpi Hringbrautar.