Ríkið átti að bjarga okkur

Ögmundur Gíslason, fyrrverandi flugstjóri hjá WOW air og flugrekstrarfræðingur, er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Ögmundur starfaði hjá WOW air í rúm sex ár og fyrst um sinn við að sækja um flugrekstrarleyfi fyrir flugfélagið. Hann þekkir því félagið út og inn og segir það samdóma álit flestra starfsmanna WOW air að ríkið hefði átt að bjarga flugfélaginu.

„Já vissulega. Félagið var rekstrarhæft. Það hafði gengið í gegnum erfiðleika árið 2017 [og 2018] en það var búið að grípa til aðgerða og snúa hlutum til betri vegar, þannig að félagið var vissulega rekstrarhæft og hefði átt að halda áfram,“ segir Ögmundur.

Hann nefnir ýmislegt sem mælir með því að ríkið hefði átt að koma að málum. „Störfin, af því hefur ríkið náttúrulega tekjur. Allir ferðamennirnir og af því hefur öll þjóðin tekjur. Þarna erum við að tala um gríðarlegar gjaldeyristekjur og fræðimenn í Háskólanum hafa sett fram að höggið verði allavega 117 milljarðar fyrir þjóðfélagið.“

Ögmundur tekur sem dæmi skatt sem hann hefur greitt sjálfur, um 4,4 milljónir á hverju ári í sex ár, sem sé bara eitt dæmi um tekjur sem tapist. „Skatturinn sem ég borgaði hefði endurgreiðst á einu ári, miðað við mínar tekjur, og 1.100 störf, hefði fyrirtækinu t.d. verið lagt til fimm milljarðar. Það eru þá líka u.þ.b. tvö til þrjú afleidd störf af mínu starfi, þannig að það að bjarga öllum þessu störfum hefði ekki þurft að kosta svona mikinn pening á hvern starfsmann. Við vorum 1.100 þannig að þetta hefði verið 4,5 milljón á [hvert] starf.“

Ögmundur segir Skúla Mogensen forstjóra WOW air hafa gert mjög margt rétt og gott en einnig að rangar ákvarðanir hafi verið teknar, sem Skúli hafi viðurkennt og Ögmundur er honum sammála. „Ég er kannski ekki algerlega að vísa ábyrgðinni á ríkisstjórnina en ég er að segja að þarna á ákveðnum tímapunkti voru uppi aðstæður þar sem það þurfti að bjarga nokkur þúsund íslenskum störfum og öllum þeim tekjum sem þar skiluðust, en það var ekki brugðist við því.“

Nánar er rætt við Ögmund í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.