Reykjandi, rænandi og rupplandi rúmeni ákærður

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt ákæru í sextán liðum á hendur rúmenskum manni á fertugsaldri. Þar sem ekki hefur tekist að hafa uppi á manninum er ákæran birt í heild sinni í Lögbirtingablaðinu.

Af sextán ákæruliðum eru alls átta tilvik þar sem maðurinn var stöðvaður af lögreglu, akandi án ökuréttinda og undir áhrifum kannabis, víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Brotin áttu sér stað á fjögurra mánaða tímabili frá apríl og fram í ágúst á þessu ári. Í flestum tilvikum gafst maðurinn, sem alltaf keyrði um á sama bílnum, upp mótþróalaust fyrir utan eitt tilvik þar sem hann var gripinn á hlaupum frá bifreiðinni.

Maðurinn er einnig ákærður í fjórum liðum fyrir að hafa kannabis í fórum sínum þegar lögreglan handtók hann, alls 20,78 grömm.

Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir þjófnað og tilraunir til þjófnaðar. Hann reyndi meðal annars að stela þremur leðurjökkum úr herrafataversluninni Karlmenn á Laugavegi sem og kjötvörum og skeggsnyrti úr verslun Hagkaups í Smáralind. Þá tókst honum að stela lyfjum fyrir tæplega 93 þúsund krónur úr apóteki Lyfju í Borgarnesi.