Ragnar er látinn

Ragnar S. Halldórsson, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Íslenska álfélagsins, lést á Landspítalanum í Fossvogi á miðvikudaginn 7. ágúst, 89 ára að aldri. Morgunblaðið greinir frá.

\"\"

Ragnar fæddist í Reykjavík þann 1. september 1929. Hann var sonur Halldórs Stefánssonar, forstjóra og alþingismanns, og Halldóru Sigfúsdóttur. Eftirlifandi kona Ragnars er Margrét Kristín Sigurðardóttir viðskiptafræðingur. Þau hjónin eignuðust fjögur börn, sem eru Kristín Vala, prófessor við Háskóla Íslands, Halldór Páll, forstjóri verktakafyrirtækisins Pihl&Søn í Danmörku, Sigurður Ragnar, forstjóri ÍAV, og Margrét Dóra, sjálfstætt starfandi tölvu- og sálfræðingur. Barnabörnin eru orðin átta talsins.

Ragnar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1950. Hann lauk M.Sc.-prófi í byggingaverkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn árið 1956. Það sama ár hóf hann störf hjá Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli og var yfirverkfræðingur og síðar framkvæmdastjóri verkfræðideildar sjóhersins. Á þeim tímum stóðu yfir miklar framkvæmdir á vegum Varnarliðsins.

Árið 1966 flutti Ragnar af landi brott Ragnar og hóf störf hjá Swiss Aluminium í Sviss og Austurríki. Í framhaldi af því, árið 1969, tók hann við starfi forstjóra álvers ÍSAL í Straumsvík. Starfi forstjóra gegndi Ragnar til ársins 1988 og eftir það gegndi hann stöðu formanns stjórnar ÍSAL um skeið.

Ragnar gegndi auk þessa fjölmörgum félags- og trúnaðarstörfum. Hann átti sæti í stjórn Verkfræðingafélags Íslands í nokkur ár og var formaður þess um skeið, var lengi í forystusveit Verslunarráðs Íslands og formaður þess 1982-1985. Þá var Ragnar lengi í framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands auk þess að sitja í stjórnum fjölda fyrirtækja og félaga. Þá átti Ragnar um skeið sæti í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og var enn fremur í stjórn Hjartaverndar.

Útför Ragnars mun fara fram síðar í þessum mánuði.