Ráðherra: ekki aukið fé til heilbrigðismála

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, staðfesti á Alþingi í dag að með nýju frumvarpi til laga um sjúkratryggingar sem nú liggur fyrir þinginu sé ekki ráð fyrir því gert að dregið verði úr heildarkostnaðarþátttöku sjúkra. Ólína Þorvarðardóttir, Samfylkingu, spurði ráðherrann beint um þetta eftir að Kristján Þór lagði fram frumvarp um sjúkratryggingar. Greiðslur færast frá einum hópi sjúkra yfir til annarra en heildarhlutdeild sjúkra í kostnaði við heilbrigðiskerfið mun ekki lækka og verða áfram 20%. Veikir munu áfram greiða um fimmtung þjónustunnar sem er mun hærri hlutdeild en þekktist fyrir nokkrum áratugum þegar skattfé fjármagnaði félagslegt heilbrigðiskerfi að mestu. Þátttaka sjúkra í kostnaði hefur tvöfaldast á tveimur áratugum.

Um 100.000 manns þurfa ef lögin verða samþykkt að greiða meira fyrir afnot af heilbrigðisþjónustu en nú er. Á móti kemur að þak verður sett á þá sem þurfa á mestu og dýrustu þjónustunni að halda. Byrðum verður létt af öxlum þeirra sem standa fjárhagslega veikast og þurfa mesta þjónustu. Var gagnrýnt í umræðu um þingmálið í dag að kostnaður væri færður til milli sjúkra en ekki greiddur af samfélaginu öllu með skattfé.

Heilbrigðisráðherra sagði viðurkennt að kerfið væri orðið að \"óskapnaði\". Fyrsta skrefið væri að breyta því, búa til eitt greiðslukerfi með einföldum hætti, skilja að lyfjagreiðslukerfi frá öðru, verja barnafólk sérstaklega. Hann vonaðist til að síðar yrðu til auknir fjármunir til að hækka hlut samfélagsins alls í kerfinu.

90.000 Íslendingar skrifuðu undir áskorun til stjórnvalda að auka framlög til heilbrigðisþjónustu.