Stefnir í greiðslufall bæjarins

Reykjanesbær er ekki lengur sjálfbær þegar kemur að því að gera skil á gjöldum sínum. Skuldahlutfall bæjarins er nú 240% af tekjum, sem er langt umfram viðmið innanríkisráðuneytisins, sem er 150% af tekjum – og stefnir allt í greiðslufall bæjarsjóðs, takist honum ekki að semja um verulegar afskriftir af skuldum sínum. Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri sem berst ásamt nýjum meirihluta við langan skuldahala bæjarins kveðst ekki vilja segja hvað afskriftirnar þurfi að vera miklar svo bærinn ráði við skuldir sínar á næstu árum, en af orðum hans má þó ráða að um stórfelldar upphæðir sé að ræða. Óvíst er hvort innanríkisráðuneytið, sem fer með málefni sveitarfélagsins, muni hafa einhverja formlega aðkomu að þessum vanda Reykjanesbæjar á næstunni, en málið verður þó á forræði þess fari á versta veg.
Fjárhagsvanda Reykjanesbæjar má að mestu rekja til offjárfestinga síðustu ára, mikils atvinnuleysis í bænum og hárrar leigu á þjónustuhúsnæði sem bærinn seldi á sínum tíma einkaaðilum.