Óvíst hvenær mayeth verður vísað úr landi - „reiði gerir engum gott, en óréttlæti þarf að leiðrétta“

Í síðustu viku fjallaði DV um Mayeth Gudmundsson, filippseyskrar konu, sem Útlendingastofnun ráðgerir að vísa úr landi vegna þess að hún og fjölskylda hennar geta ekki sýnt fram á nægar tekjur. Mayeth er gift íslenskum manni, Pjetri Gudmundsson og saman eiga þau dótturina Aimee Áslaugu. Fjölskyldan býst við brottvísun Mayeth með lögregluvaldi, en uppgefinn frestur sem Útlendingastofnun veitti henni til að yfirgefa landið af sjálfsdáðum rennur út í dag.

Mayeth og Pjetur hafa verið gift í 11 ár en hafa stærstan hluta hjónabandsins búið erlendis. Fjölskyldan hefur búið hér á landi síðan síðasta sumar. Sótti Mayeth um dvalarleyfi í ágúst en fékk ekki svar fyrr en átta mánuðum síðar, í byrjun maí. Þar var henni hafnað um dvalarleyfi á þeim grundvelli að fjölskyldan gæti ekki sýnt fram á nægar tekjur.

Pjetur hefur bent á ósamræmið sem er fólgið í því, þar sem Mayeth vilji gjarna vinna en að hún geti ekki fengið greidd laun á meðan hún sé ekki með íslenska kennitölu. Til þess að fá kennitölu þurfi hún dvalarleyfi.

„Reiði gerir engum gott, en óréttlæti þarf að leiðrétta,“ segir Pjetur í samtali við DV í dag. „Kannski er ég ósanngjarn en mér finnst Útlendingastofnun skulda okkur afsökunarbeiðni. Þetta tekur á alla aðstandendur. Þetta hefur líka tekið svo mikinn tíma og svo mikið ósamræmi er í þessari meðferð. Ég veit um nokkra sem hafa útvegað sér falskan atvinnusamning og fengið kennitölu á þremur vikum. Eftir langt hjónaband ætti dvalarleyfi að vera sjálfsagður hlutur.“

Pjetur segir að Útlendingastofnun hafi ekkert haft samband við fjölskylduna eftir að hafa komist að niðurstöðu sinni í máli Mayeth. Aðspurður um hvort að fjölskyldan hafi gert einhverjar ráðstafanir vegna brottvísunar hennar segir hann: „Nei, ég verð með kaffið tilbúið þegar þeir koma og vísa henni úr landi. Mann langar til að öskra og bölva og berja, en maður gerir það ekki. Þetta er orðið svo fáránlegt að maður tekur þessu með hálfgerðu brosi. Ég er ekki bjartsýnn á að við fáum nokkur svör.“ 

Gáfu rangar upplýsingar í síðustu viku

Útlendingastofnun hefur áréttað við DV að þær tilvísanir sem stofnunin benti á í síðustu viku varðandi heimildir til að víkja frá skilyrðum hefðu verið rangar. Þær ættu einungis við um endurnýjun dvalarleyfa. Engar heimildir séu til varðandi frumumsóknir.

Í upphaflegu svari Útlendingastofnunar í síðustu viku var bent á að samkvæmt 57. grein laga um útlendinga sé heimilt að víkja frá skilyrði um trygga framfærslu hafi framfærsla verið ótrygg um skamma hríð vegna atvinnuleysis, slyss eða veikinda eða vegna sambærilegra ástæðna og eins ef ríkar sanngirnisástæður mæli með því. Þetta á sem áður segir einungis við um endurnýjun dvalarleyfa.

Hægt er að kæra málið en ekki er útlit fyrir að það verði gert. Því þarf Útlendingastofnun að taka ákvörðun um brottvísun og gat stofnunin ekki svarað hvenær það yrði gert. Fjölskyldan bíður því í óvissu.