Ólafur f: ég ætlaði að taka líf mitt

Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík var gestur Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamál á Hringbraut á fimmtudagskvöld og veitti þar með fyrsta persónulega sjónvarpsviðtalið frá því hann hætti í pólitík.

Viðtalið, sem sjá má brot úr hér að neðan, er afar hispurslaust, svo ekki sé meira sagt, en þar segir Ólafur af mikilli einlægni frá geðsjúkdómi sínum sem gekk vissulega mjög nærri honum á meðan hann starfaði innan borgarstjórnar, en þó með miklu afgerandi hætti þegar hann hvarf af þeim vettvangi eftir að hafa verið sakaður um stuld úr sjóðum Frjálslyndra, en þær ásakanir reyndust vera innistæðulausar. Þá blasti við honum svo djúpur og myrkur dalur að hann var staðráðinn í að taka líf sitt, en þessum kafla lífs síns lýsir Ólafur mjög berum orðum og hlífir sér hvergi. Og þegar hann svarar því til af hverju hann tók ekki þetta þunga skref segir hann að börnin sín séu svarið; þrátt fyrir allt svartnættið og óhugnanlegt þunglyndið hafi hann ekki getað hugsað sér að gera börnum sínum það að hverfa þeim með þessum hætti - og hann rifjar upp hvernig yngsti sonur hans, Egill, hafi grátbeðið pabba sinn um að gefast ekki upp, en þann hluta viðtalsins má sjá hér á vef stöðvarinnar:

Og við tók batavegur, nokkuð beinn og breiður. Hann lýsir því hvernig hann komst aftur til birtunnar, með aðstoð geðlyfja - og nú sé svo komið að hann elski lífið, tónlistin hafi fært honum mikla hamingju á síðustu árum, en fátt hrífi hann raunar meira en þær stundir sem hann setjist niður og semji tónlist og texta við hana.

Í viðtalinu rekur hann skrautlegt líf sitt allt frá því hann ólst upp á Akureyri og \"varð\" að gerast læknir og byrjaði að bjarga mannslífum við oft ogg tíðum undarlegustu aðstæður, þar til hann fór að skipta sér af pólitík, í fyrstu innan Sjálfstæðisflokksins, en eftir að hann var hrakinn af landsfundi fyrir umhverfisverndarsjónarmið sín hafi hann rutt brautina fyrir þann málaflokk innan borgarstjórnar undir merkjum Frjálslyndra.

Hann gerir svo upp borgarstjóratíð sína undir sterku kastljósi fjölmiðla - og þótt hann beri ekki kala til nokkurs manns sem þar var að toga í spotta, veit hann ennþá vel hverjir brugguðu honum helstu launráðin, svo sem fram kemur í viðtalinu.

Mannmál er endursýnt um helgina á Hringbraut.