Oft beðinn um að hætta útgáfunni

Benedikt Jóhannesson útgefandi tekjublaðs Frjálsrar verslunar sagði í Launaþættinum á Hringbraut á þriðjudagskvöld að fjöldi atvinnurekenda hefur oft og tíðum þrýst á sig í þá veru að hætta útgáfu blaðsins.

Hann hefði hins vegar aldrei látið segjast, enda lítur hann á útgáfu blaðsins sem mikilvæga upplýsingu fyrir landsmenn sem auðveldi launafólki að semja um sín kjör, enda þekki það þeim mun betur til almennra kjara í sinni starfsstétt eftir því sem gleggri talnagrunnur liggi fyrir um raunveruleg laun í landinu. Fullkomlega eðlilegt sé að fólk beri saman laun sín og skoði hvernig kaupin gerast á eyrinni; það skapi aðhald og leyndarhyggja í þessum efnum skapi aðeins óþarfa tortryggni.

Því sé þó ekki að leyna að mörgum atvinnurekendum sé birting þessara gagna þyrnir í augum, segir Benedikt í þættinum - og þeir hafi margir hverjir hringt og þrábeðið hann um að hætta útgáfunni af því hún kalli á eilífan samanburð á launum innan fyrirtækja og mikinn og viðvarandi þrýsting á kauphækkanir.

Tekjublað Frjálsrar verslunar hefur komið út í aldarfjórðung, í fyrsta blaðinu voru tekjur 145 manna skoðaðar, núna eru launatölur 3,275 Íslendinga birtar eftir starfsstéttum.