Ásmundur neitar að afhenda akstursdagbækurnar: „ykkur kemur það bara ekkert við“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þegið um 25 milljónir frá Alþingi í endurgreiddan aksturskostnað frá árinu 2013, en þá settist hann fyrst á þing. Í samtali við Hringbraut segist hann ekki vilja afhenda akstursdagbækurnar.

Alþingi hefur á vef sínum birt upplýsingar um upphæðirnar sem Ásmundur hefur fengið endurgreiddar vegna aksturs á eigin bifreið. Hefur hann meðal annars viðurkennt að hafa fengið greitt fyrir akstur á tökufólki frá sjónvarpsstöðinni ÍNN árið 2017. Endurgreiddi Ásmundur Alþingi 178 þúsund krónur fyrir þann akstur.

Aðspurður um hvort hann vilji leggja fram akstursdagbækur sínar með það fyrir augum að ljúka málinu endanlega vísar Ásmundur á þingið: „Þetta er bara hérna hjá þinginu vinur. Talaðu bara um þetta við þá.“

Þannig að þú hefur ekki áhuga á því að afhenda akstursdagbækurnar þínar?

„Áhuga? Ég ætla bara að skoða þetta. Þetta kemur bara óvænt upp á mig. Ég er ekkert að afhenda hérna hvern ég er að heimsækja, ykkur kemur það bara ekkert við.“

Blaðamaður Hringbrautar var þegar búinn að athuga málið hjá skrifstofu Alþingi, sem neitaði sömuleiðis að afhenda akstursdagsbækur Ásmundar. Þegar Ásmundi var greint frá því og fyrirspurnin um hvort hann vilji afhenda dagbækurnar var ítrekuð sagðist Ásmundur ekki vilja svara fyrirspurn blaðamanns að svo stöddu. „Nei ekki núna. Ég þarf að spyrja um það. Það er fullt af persónulegum upplýsingum í þessu. Hverja ég hitti og slíkt. Ég ætla ekkert að fara opinbera það.“

Myndir þú vilja afhenda gögnin ef allar persónulegar upplýsingar eru teknar út?

„Það verður þá bara eitt að ganga yfir alla, ekki bara mig. Þú verður bara athuga að það voru fullt af þingmönnum sem [keyrðu mikið], Oddný Harðardóttir keyrði 30 þúsund kílómetra, hefurð þú spurt hana um það? Það er bara jafnt yfir alla. Ég gef ekkert svar fyrir sjálfan mig. Þingið ákveður þetta allt saman.“

Aðspurður hvort honum þætti ekki rökrétt að birta dagbækurnar í ljósi umræðunnar segir Ásmundur:

„Láttu ekki svona, þú heyrðir hvað ég sagði.“

Þú telur að þingið verði að taka ákvörðun um þetta?

„Já, það verður að vera sameiginleg niðurstaða,“ segir Ásmundur að lokum.