Nakinn með maníu

Kristinn Rúnar Kristinsson var gestur Sigmundar Ernis í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöld. Þar ræddi hann opinskátt um glímu sína við þunglyndi og maníu. Glímuna við maníu gerir hann skil í nýútkominni bók sinni, Maníuraunir.

Kristinn er ófeiminn við að segja sína sögu og hefur haldið í húmorinn. „Ég ræð ekkert við þetta, eftir svona tíu daga vex þetta og vex og ég enda inni á geðdeild. Ég hef farið á geðdeild fimm sinnum og í eitt skiptanna samþykkti ég að nauðungarvistun hafi verið þörf þar sem ég var hættulegur sjálfum mér. Sem betur fer hef ég alltaf haft húmor, annars væri ég ekki hérna í dag. Þá væri ég bara búinn að enda mitt líf“, segir Kristinn.

Sumar sögurnar af verstu maníuköstunum eru enda kostulegar og Kristinn gengst fúslega við því. Hann hafi t.d. dvalið um tíma í Mexíkó og hrifist af því hvernig bílaumferð hafi gengið fyrir sig þar í landi. Svo mjög að þegar hann kom aftur hingað til lands hafi hann byrjað að banka á rúður hjá ökumönnum og farið að segja þeim til og jafnvel sagt þeim að hunskast burt úr umferðinni. Þetta hafi svo endað með handtöku.

„Ef það er eitthvað sem ég er þekktur fyrir þá er það þessi umferðarstjórn og strípalingsatvikið á Austurvelli. Ég var að fá mér kaldan mjöð á English Pub og þá var akkúrat Free the Nipple á Austurvelli og ég fór og labbaði að Alþingi, að styttunni af Jóni Sigurðssyni og áður en ég vissi af var ég búinn að klæða mig úr öllu og henda í einhverja pósu við styttuna. Það tók sennilega einhver gangandi vegfarandi mynd af þessu og sendi á Vísi og hún birtist þar bara blörruð. Það hræðir mig kannski pínu að þessi mynd sé til óblörruð“, segir Kristinn einnig.

Þunglyndi og manía

„Þetta byrjaði þegar ég var þrettán ára, í áttunda bekk. Áföll hrinda af stað sjúkdómum og hjá mér var það að ég var mjög efnilegur í fótbolta og körfubolta. Þegar ég er tólf ára koma fram í ýkjurnar í mér, ég þyngdist um tólf kíló og yfirburðir mínir, ef svo má segja, hurfu á einu bretti. Í byrjun 8. bekks hellist yfir mig svart þunglyndi og alveg frá 13 til tvítugs er það mjög djúpt”, segir Kristinn.

Kristinn segir að á þessum tíma hafi hann falið sig og ekki viljað hitta neinn. Hann hafi verið hræddur og þá sérstaklega um að honum gæti aldrei liðið vel aftur, sem væri rosalega erfið tilfinning.

„Svo byrjar manían þegar ég er tvítugur og það er svolítið í kjölfar þess að ég missi bróður minn þegar ég er 18 ára. Það er svona annað stórt áfall. Einu og hálfu ári eftir það, sumarið 2009, fer ég í mína fyrstu maníu og fólk hélt bara að ég væri á einhverju flipptímabili eða sýru jafnvel, en ég fékk ekki að heyra að þetta hafi verið manía fyrr en á geðdeild frá geðlækni, hafði aldrei heyrt þetta orð áður“, segir Kristinn ennfremur.

Nánar er rætt við Kristinn í sjónvarpsþættinum 21:

http://www.hringbraut.is/sjonvarp/thaettir/tuttuguogeinn-21/21-lifsreynsla-madur-i-maniukasti