Momo fær ekki fund vegna sumarleyfa: „ég vil halda áfram að búa hér og gefst ekki upp strax“

Momo Hayashi, japanska konan sem á að vísa úr landi innan tæps mánaðar, fær engin svör frá hvorki Vinnumálastofnun né Útlendingastofnun. Momo var synjað um dvalarleyfi eftir að hafa búið hér á landi í fjögur ár. Hún talar reiprennandi íslensku, hefur unnið fyrir íslensk fyrirtæki og er meðeigandi að nýlegri fataverslun á Týsgötu.

„Ég vil halda áfram að búa hér á Íslandi og ég gefst ekki upp strax,“ segir Momo í samtali við Fréttablaðið í gær.

Í tölvupósti sem Momo fékk sendan í gær frá Vinnumálastofnun segir: „Vegna sumarleyfa starfsmanna er ekki hægt að verða við ósk um fundartíma.“ Hún hefur ítrekað reynt að ná sambandi við Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun en fær einungis þau svör að allir séu í sumarfríi.

„Ég hef reynt að gera allt sem ég get en Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun svara mér ekki. Ég veit ekki hvað ég get gert núna en ég er alla vega komin með fólk í kringum mig sem getur hjálpað mér. Vonandi gengur það betur,“ segir Momo einnig við Fréttablaðið.

Hún hefur leitað til japanska sendiráðsins, sem hefur nú þegar sent bréf á Vinnumálastofnun. Auk þess hyggst yfirmaður Momo fara með henni á fund með Vinnumálastofnun á mánudaginn. Þá segist hún vera að íhuga alla valmöguleika með lögfræðingi sínum.