Minnihlutinn geri úlfalda úr mýflugu

 Ásmundur Einar daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, hleypti illu blóði í stjórnarandstöðuna á þingi í dag með því að kalla kröfur minnihlutans „úlfalda úr mýflugu“.

Með því voru fulltrúar minnihlutans að mótmæla atkvæðagreiðslu um kvöldfund svo meirihlutanum takist að koma frumvarpinu um Þróunarsamvinnustofnun í gegn.

Katrín Júlíusdóttir, Samfylkingu, sagði ekki um neitt annað að ræða en valdníðslu. Þingforseti tæki þátt í því að viðhalda ófriði áfram um þróunarsamvinnu inn í kvöldið.

Þingmenn minnihlutans hafa lýst sig sammála um að það sé vont skref að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og taka inn í utanríkisráðuneytið, enda mæli stofnanir svo sem Rauði krossinn gegn því.

Birgitta Jónsdóttir, Pírötum, líkti vinubrögðum Gunnars Braga utnríkisráðherra við það þegar hann klippti einhliða á ESB-tengsl Íslendinga með bréfi.

Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, sagði að minnihlutinn héldi þinginu í gíslingu. Aðeins 4 umsagnir hefðu bortist til þingnefndar vegna frumvarpsins um niðurlagningu Þróunarsamvinnustofnunarsem gæfi vísbendingu um að andóf minnihlutans í málinu væri ekki í takt við vilja þjóðar.

Helgi Hrafn Gunnarsson, Pírötum, sagði að augljóslega væri ekki meining meirihlutans að ræða við minnihlutann heldur þreyta stjórnarandstöðuna og hundsa hana. Hann rökstuddi orð sín með því að loks þegar utanríkisráðherra hafi mætt til leiks í þinginu hafi hann ekki tekið þátt í samtali við minnihlutann um málið, en fjarvera utanríkisráðherra í umræðum hefur ekki kætt fulltrúa minnihlutans á þingi.

Atkvæðagreiðsla um kvöldfund fór þannig að 28 samþykktu, 14 voru gegn en 2 greiddu ekki atkvæði.