Milljarður er bara baunir

Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra var gestur Þjóðbrautar í morgun.  Þegar talið barst að ferðaþjónustunni og tekjum okkar af henni, sagðist Ragnheiður Elín tekjur af ferðafólki vera mjög miklar og að hún vildi ekki sérstakar tekjuleiðir, til viðbótar þeim sem nú eru, svo sem virðisaukaskattinum.

Ragnheiður Elín sagði samfélagið hagnast mikið vegna ferðamanna. Hún segir ekki þörf á að búa til nýja tekjustofna. Hins vegar sé þörf á að tryggja smærri sveitarfélögum, sem hafa mikla ferðaþjónustu en minni tekjur hennar vegna, peninga til að standa undir þeim kostnaði sem tilfellur.  

Tekjur af gistináttagjaldi eru nú 250 milljónir króna á ári. „Það eru baunir,“ sagði Ragnheiður Elín. Ef gjaldið er fjórfaldað, úr hundrað krónum í 400. „Milljarður er líka baunir í samhengi við allar þær tekjur sem fást af ferðafólki.“

Ragnheiður Elín segir virðisaukaskattinn bestu leiðin og við að hann var hækkaður úr sjö prósentum í ellefu hafi aukið tekjur ríkissjóðs umtalsvert.