Meinfýsni og illindi einkenna þingið

\"Það eru óvenjulega mikil illindi sem einkenna störf þingsins nú um stundir. Alls konar háðsglósur og meinfýsni eru þar áberandi,\" sagðir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í þættinum Þjóðbraut á Hringbraut í kvöld.

Sigmundur Davíð var þar eini gestur þáttarins og taldi sig vita ástæðuna fyrir því stríðsástandi sem verið hefur á Alþingi í allan vetur og fram á sumar: \"Það er eins og það fólk sem nú er í minnihluta í þinginu telji að völdunum hafi verið rænt af því. Það er líkast því að þeim finnist vitlaust hafa verið talið upp úr kjörkössunum fyrir tveimur árum og þeim beri að hafa völdin áfram,\" sagði forsætisráðherrann og taldi afleiðinguna vera fyrrgreinda meinfýsni sem einkenni nú störf þingsins, ásamt endalausum háðsglósum og uppnefnum.

\"Auðvitað vorum við sjálf nokkuð hörð í stjórnarandstöðunni á síðasta kjörtímabili en þingið var þó starfhæft á þeim tíma. Nú er svo ekki. Það er beinlínis misnotað. Ég hef í dag ekki hugmynd hvort samkomulag næst um þinglok í dag eða eftir heilan mánuð,\" sagði hann og taldi löngu tímabært að breyta vinnulagi þingsins til muna: \"Það virðist lærast seint að koma með þingmál fyrr inn til þingsins. Þannig hefur það verið og þannig er það núna. Það virðist vera eðli kerfisins að koma með mál svona seint inn. Þessu þarf að breyta, sennilega með þeim hætti að fá stjórnarandstöðuna fyrr inn í vinnuna, jafnvel á meðan frumvörpin eru að taka á sig mynd inni í ráðuneytinu.\"

Hann sagði að vel mætti gagnrýna verkstjórn sína sem oddvita ríkisstjórnarinnar, en aðalatriði væri að breyta þyrfti verklaginu og undirbúa þingmálin í meiri og breiðari sátt.

Hægt er að nálgast Þjóðbraut í heild sinni inni á hringbraut.is og klippur úr honum.