Meinað að birta gögn úr leyniherberginu

Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður sagði, í Þjóðbraut Hringbrautar, að úrskurðarnefnd upplýsingamála, meini honum og Vigdísi Hauksdóttur að birta upplýsingar sem þau hafa safnað saman, meðal annars í leyniherberginu svokallaða.

Guðlaugur Þór segir upplýsingarnar varða ákvarðanir fyrri ríkisstjórnar og að þar sé um að ræða ákvarðanir sem hafi kostað hundruði milljarða króna.

En eiga upplýsingarnar erindi við almenning?

„Já, svo sannarlega,“ svaraði þingmaðurinn.

Svandís Svavarsdóttir, sem var ráðherra í síðustu ríkisstjórn, tók þátt í umræðunni og spurði Guðlaug Þór hvers vegna ríkisstjórninni hefði ekki gengist fyrir birtingu upplýsinganna. Guðlaugur Þór minnti á sjálfstæði dómstóla, en úrskurðarnefnd upplýsingalaga hefur stöðu dómstóls.

„Við erum að leita leiða til að birta upplýsingarnar,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.