Margrét fram fyrir Samfylkinguna

Línur skýrast hægt og sígandi í framboðsmálum flokkanna:

Margrét fram fyrir Samfylkinguna

Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar hefur afráðið að bjóða sig fram til þings fyrir Samfylkinguna í suðvesturkjördæmi. Hún leitast eftir 1. til 2. sæti listans, en núverandi oddviti Samfylkingarinnar í kraganum, Árni Páll Árnason sækist eftir að leiða listann áfram.

Margréti er fagnað mjög af Samfylkingarfólki á fésbókarsíðu flokksins í dag, en hún kveðst klæar í slaginn í skrifum sínum á vef Herðubreiðar: "Við upplifum dásamlega en kannski svolítið óþægilega tíma. Tækifærin eru alls staðar. Tækifæri til raunverulegra samfélagsbreytinga. Við vitum þó ekki enn hvernig þetta fer allt saman. Rykið eftir hrunið er ekki sest og það þarf ekki mikið til að sár okkar opnist. Við fundum það þegar Wintris-stormurinn frá Panama skall á okkur. Og þá sýndum við líka að við látum ekki hvað sem er yfir okkur ganga. Þannig á það líka að vera."

Hún gerir svo grein fyrir pólitík sinni: "Ég vil að á Íslandi sé öflugt velferðarkerfi að norrænni fyrirmynd. Ég vil ekki rukka veikt fólk fyrir heilbrigðisþjónustu. Ég vil jöfn tækifæri fyrir alla, óháð efnahag og uppruna, menntunartækifæri fyrir alla, líka þá sem eru orðnir 25 ára. Ég vil að unga fólkið okkar, þar með talin mín eigin afkvæmi, geti flutt að heiman án þess að öll launin þeirra eða námslán fari í leigu. Það skapar fátæktagildru sem ómögulegt er að komast upp úr nema vinna í lottói, fá arf (sem setur mig í bráða lífshættu) eða flytja til útlanda. Ég vil alvöru gjaldmiðil, sanngjörn lánakjör og efnahagslegan stöðugleika. Ég vil búa í litríku, fjölmenningarlegu samfélagi með allt fullt af alls konar. Við eigum að taka þeim sem hér vilja búa og taka þátt í samfélaginu okkar fagnandi. Og ég vil að við munum að við eigum bara eitt, einstakt Ísland. Það er okkar að tryggja að komandi kynslóðir geti notið þess sem sama hætti og við gerum nú."

Nýjast