KARLAVELDIÐ KOMIÐ Á ENDASTÖÐ

Ragnhildur Stefánsdóttir höfundur nýrrar styttu utan við Alþingishúsið:

KARLAVELDIÐ KOMIÐ Á ENDASTÖÐ

Ragnhildur Stefánsdóttir myndlistarmaður sem gerði höggmyndina af fyrstu alþingiskonu Íslendinga og vígð var fyrir viku framan við Alþingi kaus að vera á meðal almennings við sjálfa afhjúpun verksins og stóð álengdar á meðan fyrirmenni toguðu í spottann.
 
Athygli vakti við vígsluna þegar Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands gekk yfir til Ragnhildar í hópi almúgans og þakkaði henni fyrir verkið. Fjöldi ljósmyndara fylgdi Vigdísi eftir og tók myndir af samtali þeirra sem tók þar með alla athyglina af sjálfri vígslunni við þinghúsið. Var það tal manna á staðnum að þessi atburður væri dæmigerður fyrir forsetatíð Vigdísar og tengsl hennar við almenning á þeim 16 árum sem hún gegndi embættinu.
 
Í þættinum Lífsins list sem var á dagskrá Hringbrautar fyrir helgi var listakonan Ragnhildur sótt heim af Sirrý, umsjárkonu þáttarins en Ragnhildur er í farabroddi íslenskra myndhöggvara og hefur verið um árabil. Í þættinum segir hún frá hugmyndunum sem liggja að baki gerð styttunnar af fyrstu konunni sem kosin var á Alþingi Íslendinga. Hún kallast á við styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli. Jón stendur þar á stalli sem er eins og pýramídi - og virðist því kominn á endastöð eins og karlveldið í dag, segir Ragnhildur Stefándsdóttir í þættinum.
 
Stöpullinn sem styttan af Ingibjörgu hvílir á er aftur á móti eins og öfugur pýramídi, opin og uppbyggjandi og gefur til kynna uppbyggingu og framtíð þar sem pláss er fyrir fleiri. Ingibjörg gengur með storminn í fangið og það gustar af henni eins og öðrum konum sem rutt hafa brautina samfélaginu til heilla.
 
Nálgast má þáttinn í heild sinni eða í klippum inni á hringbraut.is. 

Nýjast