Leiguverð hækkað um 40 prósent

Talið er að leiguverð á Íslandi hafi hækkað um að minnsta kosti 40% á síðustu fjórum árum sem rekja má til ónógs framboðs af húsnæði, einkum litlum og meðalstórum íbúðum í helstu þéttbýlisstöðum landsins. Algengt leiguverð á tveggja herbergja íbúð í vinsælustu hverfum Reykjavíkur er nú nálægt 150 þúsundum króna á mánuði, ríflega 120 þúsund í úthverfum borgarinnar og rösklega 90 þúsund á Akureyri, svo dæmi sé tekið.


Víðast hvar er leiguverð orðið svo hátt að ungt fólk sér sér ekki fært að leigja íbúð nema í slagtorgi við annað fólk og er orðið býsna algengt að tveir eða þrír vinir slái saman um leigu á einni íbúð, eða jafnvel að fólk auglýsi á samfélagsmiðlum eftir samleigjanda.


Ríkisstjórnin hefur marglýst því yfir frá því hún tók við völdum að aðgerðir í þágu leigjenda og fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð séu á leiðinni, en kjörtímabilið er senn hálfnað.