Leigðu blokk þrátt fyrir höfnun bæjaryfirvalda

Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, er gestur Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræðir hann málefni hælisleitenda.

Árið 2004 gerði Reykjanesbær þjónustusamning við ríkið og hóf að taka á móti hælisleitendum. Tíu árum síðar bættust Reykjavík og Hafnarfjörður í þann hóp. Útlendingastofnun sendi nýlega bréf til annarra sveitarfélaga og kannaði áhuga þeirra á að taka við hælisleitendum vegna þörf á fleiri búsetuúrræðum fyrir þá. Garðabær samþykkti á dögunum að taka við 10 samkynhneigðum hælisleitendum frá Úganda.

Friðjón kallar eftir því að fleiri sveitarfélög stígi upp og taki á móti hælisleitendum. „Mér finnst sjálfum að sveitarfélög verði að taka á móti fólki. Það er enginn á Seltjarnarnesi. Kópavogur þarf að stíga upp. Akranes, Selfoss, Hveragerði, Þorlákshöfn, allir þessir staðir þurfa að stíga upp. Ég tala nú ekki um sveitarfélögin á Suðurnesjum eins og Vogar, Suðurnesjabær og Grindavík. Það er í raun og veru skammarlegt að þau skuli komast upp með það að segja nei, horfandi á það að það eru bara þrjú sveitarfélög sem eru að gera þetta.“

Í þessum þremur sveitarfélögum sem eru með þjónustusamning við ríkið eru í kringum 330 manns að sögn Friðjóns. „Í tilfelli Reykjanesbæjar erum við með tæplega 70 og þetta er mest fjölskyldufólk, einstæðar mæður með börn. Þessi hópur sést eiginlega ekki, hann er dreifður um bæinn, gengur mjög vel og samlagast inn í sveitarfélagið. Í Reykjanesbæ í dag eru um 24 prósent íbúa erlendir, af erlendum uppruna. Þessi 70 renna bara beint inn í það, við erum með allt að 30-40 tungumál í einum skóla. Þannig að við erum mjög alþjóðlegt samfélag.“

Útlendingastofnun gekk fram hjá bæjaryfirvöldum

Ekki fá þó allir hælisleitendur notið þessa úrræðis sem boðið er upp á í sveitarfélögunum þremur og því greinarmunur á þeim og öðrum hælisleitendum. „Aftur á móti vekur það kannski athygli að hinn hlutinn af hælisleitendum, sem ekki eru með þjónustusamning við sveitarfélagið, þau eru á vegum Útlendingastofnunar, sem hefur ekki neitt að gera með Reykjanesbæ. Útlendingastofnun leigir húsnæði, blokk eða blokkir, upp á Ásbrú meðal annars. Það er alfarið á vegum Útlendingastofnunar, við komum ekkert að því,“ segir Friðjón.

Hann segir bæjarráð Reykjanesbæjar mjög ósátt við þetta fyrirkomulag hjá Útlendingastofnun enda hafi stofnunin beinlínis gengið fram hjá bæjaryfirvöldum þegar þau sögðust ekki geta tekið á móti fleiri hælisleitendum. „Við höfnuðum samstarfi við Útlendingastofnun og það næsta sem við fréttum var að þeir væru búnir að leigja blokk, og þetta er í annað skipti sem þeir gera það. Þetta eru mest ungir karlmenn. Aðstaðan hjá þeim er alveg ágæt, húsnæðið er fínt og annað slíkt. En auðvitað félagslega er þetta örugglega mjög erfitt. Þeir koma alls staðar að, andlega mismunandi. En vandamálið er kannski það að við höfum ekkert með þetta fólk að gera og vitum í raun og veru ekkert um það starf sem þar fer fram.“

Nánar er rætt við Friðjón í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.