Lárus dagur er látinn: fyrirmynd og hetja - „megi minn­ing lárus­ar lifa á meðal okk­ar“

\"\"Lárus Dagur Pálsson fæddist í Reykjavík 6. september 1973. Hann lést 19. október 2019. Eftirlifandi eiginkona hans er Anna Sif Ingimarsdóttir. Eignuðust þau Anna og Lárus þrjú börn. Lárus Dagur lék 11 ár í úrvalsdeild körfuknattleiks með meistaraflokkum Tindastóls og Vals við góðan orðstír. Þá þótti hann afar góður þjálfari hjá yngri flokkum á Sauðárkróki. Greint er frá andláti Lárusar í Morgunblaðinu í dag.

Lárus Dagur var fyrirliði Tindastóls, burðarstólpi í liðinu og keppnismaður fram í fingurgóma. Til marks um það, þá var hann kosinn íþróttamaður Tindastóls árið 2001. Lárus Dagur var alhliða leikmaður og góð skytta sem gat snúið vonlausri stöðu í sigur. Sem dæmi má nefna að tímabilið 2000 til 2001 var hann með næst bestu skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna af öllum í deildinni eða 44,2%.

Fyrirmynd og hetja

Lárus Dagur var einnig stór hluti af mótunarárum margra ungra drengja á Sauðárkróki sem þar stunduðu körfubolta. Hann hafði brennandi áhuga á að þjálfa ungu kynslóðina og nokkrir drengjanna áttu svo eftir að spila með þjálfara sínum í meistaraflokki Tindastóls. Hann var þeirra fyrirmynd og hetja. Þeir leikmenn sem hann þjálfaði og eru nú fullorðnir menn, segja að hann hafi byggt upp sjálfstraust þeirra og liðsvitund og án hans hefðu margir hætt fyrr í körfubolta og þar með misst af þeim félagsþroska sem íþróttir gefa ungu fólki.

Nýtti leikjafræði úr körfuboltanum í fyrirtækjarekstur

\"\"Lárus Dagur vann sem forstöðumaður Hrings ehf., Atvinnuþróunarfélags Skagafjarðar. Hann var framkvæmdastjóri Landsmóta hestamanna árin 2002 og 2004 og stjórnarformaður Landsmóta hestamanna um árabil. Lárus Dagur starfaði sem fjármálastjóri hjá Vírneti, Límtré Vírneti og BM Vallá. Hann tók við starfi forstjóra eignarhaldsfélagsins Hornsteins árið 2015 og gegndi því starfi þegar hann lést.

Af samstarfsfólki er honum lýst sem fyrirliðanum í liðinu sem nýtti leikjafræði úr körfuboltanum til að nálgast verkefnin og stilla upp leikkerfi til sigurs. Hann hafi verið afburðarforstjóri sem kunni sín fræði upp á hár og fyrirtækin sem hann stýrði blómstruðu undir hans stjórn. Hann hafi snert hjörtu allra þeirra sem kynntust honum.

Starfsfólk Hornsteins, BM Vallár, Björgunar og Sementsverksmiðjunnar segja í Morgunblaðinu:

“Við erum harmi sleg­in yfir frá­falli Lárus­ar Dags, sam­starfs­fé­laga okk­ar og vin­ar. Minn­ing­ar um góðan, hjarta­hlýj­an og ein­læg­an mann með ein­staka kímni­gáfu munu lifa um ókomna tíð. Minn­umst við ferða til út­landa, hesta­leiðangra og ekki síst hins dag­lega amst­urs og spjalls­ins í há­deg­inu þar sem Lár­us, kát­ur og hress, tók full­an þátt í að greina fót­bolta­leiki helgar­inn­ar og stöðu Liverpool eða önn­ur grafal­var­leg mál­efni.

Við send­um fjöl­skyldu hans og öðrum ást­vin­um okk­ar dýpstu samúðarkveðjur. Guð blessi minn­ingu Lárus­ar Dags Páls­son­ar.”

\"\"

Þá skrifar Þorsteinn Vilhelmsson stjórnarformaður Björgunar:

„Lár­us Dag­ur var mjög heil­steypt­ur og heiðarleg­ur maður sem mátti ekk­ert aumt sjá. Lár­us var mik­ill hestamaður, húm­orísk­ur og glett­inn, en gat stund­um verið dá­lítið þrár. Megi minn­ing Lárus­ar Dags lifa á meðal okk­ar.“

Þá var Lárus Dagur kosningarstjóri Sjálfstæðismanna í Norðurlandskjördæmi vestra í kosningunum 1999. Vilhjálmur Egilsson skrifar um Lárus Dag:

„Lárus Dagur Pálsson var jarðsettur í dag en fjölmenni var við útförina. Fráfall Lalla kom mikið á alla sem til hans þekktu og og við samhryggjumst fjölskyldu hans og öllum aðstandendum sem hafa orðið fyrir miklu áfalli og sorg. Lalli var kosningastjóri okkar Sjálfstæðismanna í Norðurlandskjördæmi vestra í kosningunum 1999. Hann var magnaður í því hlutverki, hafði frábæran skilning á verkefninu, duglegur, góður skipuleggjandi, hvetjandi og jákvæður í samskiptum og átti auðvelt með að virkja fólk með okkur.

Lalli var mikill keppnismaður en hann bar virðingu fyrir keppinautum okkar og lá aldrei illt orð til neins þótt tekist væri á. Við áttum að vinna vegna þess hvað við vorum góðir en ekki vegna þess hve hinir voru slæmir. Og við vorum að keppa um að láta gott af okkur leiða fyrir kjördæmið og þjóðina alla. Lalli var einstaklega velviljaður og réttsýnn og það var gaman að fylgjast með því hvernig hann óx af verkum sínum.

En lífið er ekki alltaf sanngjarnt og nú er Lalli ekki lengur með okkur. Við það fékk enginn ráðið en Guð mun varðveita sálu hans og blessa fjölskyldu hans og styrkja í sorg hennar.“

 Útför Lárusar Dags var gerð frá Löngumýrarkapellu í dag, 2. nóvember.