Landspítali: stórfé vantar í rekstur

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala segir í nýjasta forstjórapistli sínum að í fjárlagafrumvarpi næsta árs skorti ekki aðeins fé til sóknar á sjúkrahúsinu heldur í raun til óbreytts rekstrar.
 

Páll segir í pistlinum að það fé sem spítalanum er úthlutað til stofnframkvæmda á ári hrökkvi skammt. Þar þurfi Landspítalinn til viðbótar 1,4 milljarða til viðhalds og nýframkvæmda. Þá sé það vandamál ár eftir ár að töluvert vanti upp á að launabætur ríkisins vegna kjarasamninga dugi fyrir launum. Páll segir að þetta vanmat hafi verið sérstaklega áberandi í nýjum kjarasamningi lækna; nærri fjögurhundruð milljónir króna vanti upp á að samningurinn sé rétt fjármagnaður, þótt sú upphæð kunni að vera töluvert vanáætluð. 

Þá sé kostnaður sjúkrahússins við lyfjagjöf vanáætluð í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Gert sé ráð fyrir þriggja prósenta aukningu á kostnaði til S-lyfja (dýr sérhæfð lyf) en rauntölur bendi til að 8,4 prósent væru nær lagi. Forstjórinn segir að vanáætlun í þessum lið bitni á sjúklingum. Ef fé verði ekki aukið til þessa málaflokks verði vart hægt að taka upp ný S-lyf.

Í viðtali við Morgunblaðið í dag segir Páll að honum sé hvorki heimilt, né hafi hann það í hyggju að skera niður nauðsynlega þjónustu: \"Ég höfða því til Alþingis að taka sig taki og fjármagna spítalann á fullnægjandi hátt,“ segir hann viuð blaðið. Eðlilegt væri að fjárveitingar til Landspítala aukist sjálfkrafa um 1% á hverju ári eins og framlög til tryggingaflokka Sjúkratrygginga Íslands.