Katrín fær laun sem engum er bjóðandi vegna villu í kerfinu: talin of tekjuhá með smánarlaun: „ég borða víst ekki fyrir þau laun sem ég fékk í mars"

Katrín A. Sandholt lenti í bílslysi þegar hún var fimmtán ára gömul sem olli því að hún varð 50% öryrki. Síðan þá hefur hún fengið greidda nokkra þúsund kalla af og til vegna slyssins. Í dag er staða hennar svo slæm að eftir greiðslu á öllum reikningum á hún tæplega þrjátíu þúsund krónur til þess að lifa af fyrir sig og son sinn.

„Ég varð 50% öryrki fimmtán ára gömul og hef verið að fá frá Tryggingastofnun Ríkisins síðan þá nokkra þúsund kalla á mánuði. Suma mánuði fékk ég auðvitað ekkert þegar ég hef verið of tekjuhá en núna í nóvember í fyrra lenti ég í kulnun. Ég fór á sjúkradagspeninga og kláraði þá þann 1. ágúst. Þá átti að taka við endurhæfingarlífeyrir frá TR en af því að ég hafði alltaf verið inni í kerfinu vegna örorku þá reikna þeir allt árið í tekjur,“ segir Katrín í samtali við Hringbraut.

Borðar ekki fyrir þau laun sem hún fékk í mars

Katrín segir að vegna þess að hún hafi verið skráð sem öryrki í kerfinu og hafi þegið bætur vegna slyssins þá lendi hún „á milli“ sem orsaki það að að henni eru reiknuð laun sem engum er bjóðandi. 

„Það hjálpar heldur ekki að VR gerði villu á launaseðli sem lætur það líta út fyrir að ég hafi fengið heilan mánuð greiddan aukalega sem ég fékk ekki og vegna þessa er ég of hátt launuð fyrir þetta árið og því er þetta niðurstaðan.“

Innifalið í greiðslunni sem Katrín fær frá TR er einnig meðlag en hún á einn dreng sem hún sér fyrir.

„Ég borða víst ekki fyrir þau laun sem ég fékk í mars og hvar sem ég leita, til dæmis til féló sem sér um framfærslustyrk og sérstakar húsaleigubætur að þá reikna þeir alltaf þrjá mánuði aftur í tímann og þá telja þeir mig hafa verið og tekjuháa. Þar erum við að tala um þrjúhundruð þúsund krónur á mánuði, sem of há laun. Það eru nú engin bankastjóralaun og það er ekki eins og ég hafði möguleika til þess að safna fyrir óvæntum veikindum á þeim launum. Þeir reikna svo þrjá mánuði í einu fram í tímann og ráðgjafinn minn hjá VIRK er að hætta núna og ég hef ekki fengið nýjan ráðgjafa enn og hef því ekki geta beðið þau um að framlengja endurhæfingarmatinu til þess að geta látið TR reikna allt árið fyrir mig. Það er bara búið að reikna fram að október svo einmitt núna veit ég ekkert hvernig næstu mánuðir verða.“

Heildar greiðslur Katrínar frá Tryggingastofnun eru 126.784 krónur á mánuði, innifalið í þeirri greiðslu er meðlag. Þennan mánuðin fær Katrín einnig barnabætur upp á 78.969 krónur og hefur hún því efni á að greiða þá reikninga sem þarf. En barnabætur koma ekki í hverjum mánuði og duga þær því skammt.

\"\"

Mynd: Sundurliðaður greiðsluseðill Katrínar. 

„Ég var að fá skilaboð frá íbúðarlánasjóði og þeir hækkuðu húsaleigubæturnar aðeins og ég á því þrjátíu þúsund krónur eftir til þess að lifa út mánuðinn. Ég ætlaði að reyna að ná í einhvern í dag en það var allt lokað frá hádegi. En þetta er hrikalega flókið dæmi, ég er í fullri vinnu við að finna út úr þessum vottorðum og sjúkrasjóðnum og öllu. Svo þegar upp er staðið hefu rmaður engann möguleika á því að vinna í heilsunni og þar af leiðandi ekki séns á því að komast aftur inn á vinnumarkaðinn. Það er óskiljanlegt að í samfélagi eins og okkar þá sé öryggisnetið í raun ekki til. Sálfræðingurinn minn var mjög hissa á því hversu lengi ég hef verið að jafna mig á kulnuninni en ég útskýrði fyrir henni að það væri nær ómögulegt að slaka á og forðast stress þegar maður þarf að telja aurana.“