Sá mann rekinn vegna skoðana sinna

Í fyrradag var sumardagurinn fyrsti og margir hlakka til betri tíma.  Sumarkoman hlýtur þó að vera blendin hjá þeim hópi landsmanna sem er fastur í fátæktargildru, getur ekki látið sig dreyma um lífsgæði líkt og ferðalög. Hjá þeim hópi stendur tilbreytingin og fellur með því að sólin láti sjá sig og að það takist e.t.v. að nurla saman nokkrum krónum fyrir ís þegar best lætur. Ekki er á vísan að róa með sjálfa Íslandssólina. Það er góðæri - en aðeins sumir fá notið þess. Það sýna uppljóstranir úr Panamaskjölunum vel.

Jón Sigursteinsson, íbúi og  fyrrum sjómaður á Suðurnesjum, er viðmælandi Hringbrautar annan dag í sumrinu 2016. Hann gagnrýnir að á sama tíma og fólk sé flutt inn frá útlöndum til Suðurnesja sem aldrei fyrr sé launum starfsfólksins haldið svo niðri að það taki sérþjálfað fólk þrjár klukkustundir að vinna sér inn fyrir einum hamborgara. Jón segir að á sama tíma hafi lífeyrissjóðir rænt almenning framlagi sínu. Hann hafi sjálfur verið sjómaður til áratuga með ágæt laun, hafi sem dæmi greitt tvær milljónir króna í lífeyrissjóð síðustu tvö árin sem hann starfaði á sjó. Eigi að síður sé niðurstaðan sú að lífeyrir hans sé kr. 155.000 krónur á mánuði.

Hringbraut ræddi við Jón í tilefni af athugasemd sem hann skrifaði á facebook. Þar skrifaði Jón: \"Meiri fréttir af af Suðurnesjum. Mjög lítið atvinnuleysi mælist nú á guðs útvalda nesi, cirka 3%. Fluttir eru inn Pólverjar og Litháar sem aldei fyrr, venjulegur sauðsvartur er að fá útborgað 250-280 þúsund krónur fyrir 12 tíma vaktavinnu. Fiskvinnslumaður með allar \"diplómur\" er á þriðja klukkutíma að vinna fyrir hamborgara á Olsen sem er nú ekki þriggja stjörnu. (Tek fram að borgarinn er góður) Guð blessi Ísland.\"

Bannaða orðið lýsi launakjörum best!

\"Það orkar allt tvímælis hér í Reykjanesbæ þessa dagana,\" segir Jón vegna fjárhagsvanda sveitarfélagsins þegar Hringbraut slær á þráðinn til að kanna hvað búi að baki athugasemdar hans á facebook. Hann segir að þótt dauði og djöfull sé yfir rekstri bæjarins vanti ekki vinnuna nú um stundir. Massívur innflutningur vinnuafls frá útlöndum, einkum Póllandi og Litháen, hafi hafist til Suðurnesja fyrir 2-3 mánuðum. Mörg starfanna séu unnin við flugstöðina. Þótt Jón setji réttilega sjálfur fyrirvara við hugtakið sem hann sjálfur notar, sjái hann ekki betur en að orð sem nú þyki ekki gott að noota lengur og tengt er við ánauð og kynþátt lýsi ástandinu best. Menn séu að fá fá útborguð 250-270 þúsund krónur fyrir 12 tíma vaktavinnu. Í fiskvinnslunni séu launin komin niður fyrir 1000 krónur útborgað fyrir hverja klukkustund. Það skjóti skökku við að á sama tíma og þensla og verðmætasköpun eigi sér stað sem aldrei fyrr, fyrir útvalda, séu borguð laun á allægstu töxtum á sama tíma á verð á vöru og þjónustu hafi rokið upp í Reykjanesbæ.

Fyrir neðan allar helllur

\"Þeir sem eru að flytja hingað vinna ýmist uppi á flugvelli eða í fiskvinnslunni. Í fiskvinnslunni er uppistaðan Pólverjar og Tælendingar. Taxtar eru eins lágir og lög leyfa. Að fá 900-1000 kall í veskið eftir klukkustund í fiskvinnslu, það er fyrir neðan allar hellur,\" segir Jón.
Hann man tímana tvenna eftir að hafa starfað á sjó hjá ÚA, Granda og í Vestmannaeyjum svo nokkuð sé nefnt á langri starfsævi. Hann segir að í eina tíð hafi kaupið í fiskvinnslunni verið svo gott að útgerðir hafi fært frystinguna út á sjó. Nú sé búið að þrýsta launum niður og sé samhengi milli framboðs og eftirspurnar á alþjóðlegum launamarkaði. Nú sé verið að reisa milljarða hallir í landi sem þýði að hún færist aftur frá sjónum.

Sá mann rekinn vegna skoðana hjá Granda

Við Jón ræðum næst þöggun og sjómennsku. Kúgun gegn sjómönnum hefur orðið fréttaefni síðasta misseri. Forkólfar verkalýðsfélaga hafa sagt að sjómenn hafi hvorki skoðana- né tjáningarfrelsi ef þeir ætli að fá að halda vinnu hjá leiðandi útgerðum. Allra síst ef gagnrýna eigi laun og aðbúnað.

\"Ef þú opnar kjaftinn og ert á þessum skipum þá er maður rekinn. Ég veit það, því það var gert hjá Granda þegar ég starfaði þar,\" segir Jón og hvetur aðra Íslendinga til að opna muninn og berjast gegn órétti.

Talið berst næst að lífeyrisgreiðslum.

\"Ég eyddi 11.000 dögum úti á sjó á aflahæstu skipum landsins en staðan er sú eftir öll þessi ár að lífeyrissjóðurinn slagar í 155.000 krónur hjá mér á mánuði. Gildi, lífeyrissjóður togarasjómanna er undirstaðan. Sá sjóður tók að sér 3-4 gjaldþrota sjóði til að að halda uppi flottasta lífeyriskerfi í landinu. Þetta er árangurinn,\" segir Jón en tekur þó fram að hann komist sæmilega af.

Enginn dómstóll vill snerta á þessu

Jón er gagnrýninn á misskiptingu verðmæta hér á landi. Hann hefur nokkrum sinnum gert atlögu að réttarbótum. Hann fór með allt lífeyrissjóðsbókhald sitt frá árinu 1962 í fjóra lögfræðinga. \"Þeir vildu lítið segja og enginn vildi taka mál mitt að sér. Sá síðasti sagði að enginn dómur myndi nást um þessi mál innanlands en kannski ættu þessi mál heima fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.\"

Hammarinn upp um 33%

Jón býr í Reykjanesbæ, gömlu Keflavík eins og hann orðar það. Á sama tíma og launum almennings og lífeyrisgreiðslum er haldið niðri hefur verð á hamborgara rokið upp að hans sögn og kannski má sömu sögu segja um sumarísinn líka.

\"Hamborgarinn kostar núna 3000 krónur, hann er góður, vel útilátinn borgari með öllu, alveg heil máltíð en fyrir einu og hálfu ári kostaði þessa borgari 2000 krónur. Ég skal nefna fleiri dæmi. Svínabógur í lágvöruverðsbúð kostaði 500 krónur fyrrasumar en núna 800. Svona er þetta allt,\" segir sjómaðurinn og lífeyrisþeginn Jón Sigursteinsson og er ekki einn um að gagnrýna hvernig gæðum landsins er skipt.


Viðtal: Björn Þorláksson